
Slysavarnadeildin Unni ákvað á síðasta aðalfundi, sem haldinn var 19.febrúar síðastliðinn, að styrkja kaup á nýju björgunarskipi um 10 milljónir. Styrkurin var afhentur í gær og við honum tók Ólafur Helgi Haraldsson fyrir hönd björgunarbátasjóðs V-Barðastrandarsýslu.
Fanney Inga Halldórsdóttir er formaður slysavarnardeildarinnar Unnur: „Þegar deildin var stofnuð 1934 var það hennar aðaltilgangur að vinna að því, að hjálp sé fyrir hendi, þá er sjóslys ber að höndum. Sérstaklega vinnur deildin að fjársöfnun til björgunarskútu Vestfjarða ( Maríu Júlíu) Hún vill efla öryggi sjófarenda með auknum björgunartækjum og styðja að öllu því, er verða má til þess að sporna við slysförum við strendur Íslands. Okkar helsta markið er að vinna að slysavörnum og forvörnum.“
Fanney Inga bætti því við að önnur félög á svæðinu væru hvött til þess að taka í þessu mikilvæga verkefni.
Á laugardaginn var tilkynnt um 30 m.kr. framlag Odda hf til kaupa á nýju björgunarskipi til Patreksfjarðar.