Rétt eða rangt

Er fólk nokkuð búið að gleyma út á hvað sjávarútvegsstefna þjóðarinnar gengur og hvaða breytingar hún hefur haft í för með sér síðan hún var innleidd ?

Það er kannski ekki úr vegi að fara í smá upprifjun á mannamáli þar sem nú er tekist á um hagkvæmni strandveiða.

Einu sinni var líf og fjör við hafnir landsins – menn reru til fiskjar og lönduðu afla til fullvinnslu í heimabyggð. Í sjávarbyggðum landsins voru menn ánægðir með að vera þátttakendur í að afla þjóðarbúinu tekna og skapa atvinnu heima fyrir.

En svo var farið að tala um ofveiði – línubátarnir og trillukarlarnir voru að ganga að fiskistofnunum dauðum að sagt var og til að vernda þá var komið á kvótakerfi og togaraútgerð stórefld – kvóta var síðan úthlutað eftir umdeildum reglum endurgjaldslaust en gegn hóflegu auðlindagjaldi. Sumir fengu en aðrir ekki.

Það var svo með þetta kerfi eins og mörg önnur að það tók breytingum – ákveðið var einn daginn í „æðsta ráði“ að heimila kvótahöfum að leigja frá sér kvóta til þeirra sem áður höfðu ekki hlotið náð fyrir augum úthlutunarráðs – þannig að þá gátu þeir sem í upphafi fengu nánast ókeypis aðgang að fiskimiðunum farið að selja öðrum aðgang að þeim. Svo kom að því að kvótahöfum var leyft að veðsetja kvótann – það er að segja óveiddann fiskinn sem enn synti í sjónum. Vandséð hvernig sú ráðstöfun hefur átt að vernda fiskistofnana – svo fróðlegt væri að fá færð fyrir því vitræn rök.

Þessar breytingar höfðu það í för með sér að fiskverð upp úr sjó hækkaði umtalsvert sem gerði fisvinnsluhúsum erfitt fyrir – þeim sem sköpuðu mestu verðmætin fyrir fullvinnslumarkaði erlendis – þar sem mest mátti fá fyrir afurðirnar. Frystihúsin eins og þau voru kölluð fóru því eitt af öðru í úreldingu – sem í framhaldinu bannaði að í þeim yrði unnið fiskmeti um ókomna tíð. Fiskvinnsla færðist þá að mestu út á sjó um borð í fyrstitogarana þar sem lítið sem ekkert eftirlit var haft með nýtingu – en frystihúsin höfðu áður verið undir ströngu eftirliti í þeim efnum. Afli minni báta var svo og er að mestu fluttur úr landi óunnin á ferskfiskmarkaði og verðmætir fullvinnslumarkaðir hafa glatast.

Við þessar breytingar misstu margir vinnu sína og mörg byggðarlög við sjávarsíðuna undirstöðurnar þar sem engir aðrir en þeir sem fengið höfðu kvóta frítt í upphafi höfðu bolmagn til að reka frystihús – þar sem þeir þurftu ekki að kaupa fiskinn af sjálfum sér né þá heldur að leigja aflaheimildir.

Sumir reyndu að hafa áhrif með því að benda á hversu arfavitlaust þetta væri og skaðlegt fyrir þjóðarbúið – en þeim var bara sendur fingurinn – kallað niðurrifsfólk og vísað út í skot hjá skrattanum.

Á sama tíma og fólkið við sjávarsíðuna var að sleikja sárin og reyna að átta sig á breyttum veruleika var góðærið mikla að hefja innreið sína á höfuðborgarsvæðinu – farið var að líta landsbyggðarfólk hornauga og jafnvel segja það dragbíta á þjóðfélaginu – enginn virtist leiða hugann að því hvaðan gullkálfurinn sem dansað var í kringum væri ættaður.

Það var framsalið í kvótakerfinu sem ól af sér gullkálfinn og veðsetningarréttur aflaheimilda belgdi hann út – hann útblásinn var síðan leiddur af handhöfum aflaheimildana inn á markaðstorg viðskipta – skotsilfrið sem startaði hinu íslenska góðæri var því komið úr sjávarútvegnum – það má því segja að höfuðborgarbúar hafi fengið landsbyggðina í aðalrétt í villtasta partíi síðari tíma.

Fyrirtæki gengu í kaupum og sölu og þeir sem höfðu úr mestu að moða kölluðust fjárfestar – síðar útrásarvíkingar – þeir keyptu allt sem falt var – banka, tryggingafélög, olíufélög, skipafélög, verslanakeðjur, lyfjaframleiðslur og hvaðeina það sem mátti með blessun stjórnvalda mjólka almenning í gegnum. Engin verðmætasköpun átti sér stað í þessum viðskiptum – miklir fjármunir voru bara sí og æ að skipta um hendur með hagnaði við hverja sölu þeim til handa sem í hlut áttu – sem sóttur var á endanum í vasa almennings með auknum álögum á vörur og þjónustu – í dag köllum við þetta hagnaðardrifið höfrungahlaup sem er orsök óstöðuleika og verðbólgu.

En svo hrundi spilaborgin og forsætisráðherra biður guð að blessa Ísland furðu lostin – já, alveg steinhissa – hagfræðingurinn sem hann var hafði ekki gert sér grein fyrir í hvað stefndi þó margir minni spámenn hafi verið búnir að gera sér grein fyrir því löngu áður en ráðherrann biðlaði til almættisins – þegar séð var fram á að elítan gæti ekki lengur grætt á daginn og grillað á kvöldin.

Almenningi er svo sendur reikningurinn fyrir veisluhöldunum og margir flúðu land slippir og snauðir og sárir yfir því að hafa verið blekktir. Sumir þeir sem sök áttu þurftu þó fyrir að gjalda á meðan aðrir gátu haldið sínu striki með trausta afkomu af auðlind þjóðarinnar til sjávar þó veðsett væri upp í rjáfur.

Í framhaldinu þjappaðist auður og eignir á enn færri hendur og í daga eiga sömu aðilar nánast allt hér á fróni.

Ráðamenn voru undanskyldir allri ábyrgð þó þeir hafi greitt götur þeirra sem voru í raun að ræna þjóð og þegna – þeir sem áttu að hafa þekkingu til að sjá að það að ræna almenning er hagfræði sem aldrei getur gengið upp.

Af hverju þurfa sumir endalaust að stagla á því sama kunna einhverjir að spyrja – því er auðsvarað – það er með mistökin eins og grýlu það þarf stöðugt að vera að minna á þau svo vitleysan verði ekki endurtekin. Það má ekki láta þá sem fremja glæpi gegn þjóðinni komast upp með að endurtaka þá eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Við erum pínulítil þjóð sem á stórar auðlindir samt er hér allt í ólestri.

30% þjóðarinnar býr við skert lífsgæði sökum fátæktar – við eigum heimsmet í gleðipilluáti og sjálfsvígum – við búum við heimsinsmesta vaxtaokur svo ungmenni hafa ekki ráð á að koma sér þaki yfir höfuðið – matarkarfan hér er með þeim dýrari í heiminum – heilbrigðiskerfið rústir einar sem og skólakerfi – gatnakerfinu er ekki hægt að viðhalda nema með auknum álögum á bifreiðaeigendur sem mun grafa enn frekar undan landsbyggðinni og það þarf að sækja um leikskólapláss helst fyrir getnað því biðlistar eftir plássi eru svo langir. – Já, biðlistarnir eru út um allt – það þykir orðið svo sjálfsagt að fólk setji líf sitt í bið þangað til að vanrækt kerfið hefur ráð á að veita lögbundna þjónustu.

Óleyst vandamál gefa sannarlega tilefni til endurtekninga og að benta sé á orsakir þeirra í þessu glundroða þjóðfélagi.

Hér var aðeins fátt eitt upp talið af því sem plagar þessa þjóð sem annars gæti lifa eins og blómi í eggi ef hún fengi að njóta arðsins af auðlindum sínum og ef ráðið væri í stöður eftir getu og hæfileikum en ekki frændsemi og flokkskírteinum.

Góðærið svokallaða lét aldrei sjá sig á landsbyggðinni – hún var í raun afgreidd með framsalinu og ætla má að það hafi verið fyrirséð svo augljóst sem það var. Landsbyggðinni verður ekki bjargað nema með því að byggðarsetja kvótann og afnema þar með framsalið.

Ég get ekki séð að þjóðin skuldi þeim neitt sem hafa verið að mylja undir sig gull í áratugi sem handhafar sjávarauðlindarinnar og sem margir vilja meina að víða sé geymt – svo fyrirstöðulaust ætti að vera hægt að afnema ólögin.

Það mun aldrei ríkja sátt um núverandi sjávarútvegsstefnu – þar sem handhafarnir setja leikreglurnar og veruleikafirrtir ráðamenn kvitta undir.

Ég tel það ganga landráði næst að verja þetta kerfi og viðhalda því – það er þjóðarmein. Það hvernig farið hefur verið með suma sem það hafa gagnrýnt undirstrikar þá staðreynd – það er eitthvað mikið að því sem ekki þolir gagnrýni. Og eitthvað mikið að því stjórnarfari sem líður það að fólk sé gert að olnbogabörnum vegna skoðanna sinna – stundum með aðstoð þeirra sem skilyrðislaust ættu að gæta hlutleysis við störf sín.

Sjávarútvegsstefna þjóðarinnar er meingölluð – hún hefur gert fáa ofurríka sem komist hafa upp með valdníðlsu í krafti auð sína – hún er aðför að landsbyggðinni og hún hefur gert þjóðina fátækari.

Það er eins og mannréttindarbrot séu orðin hefð hjá íslenskri elítu. Það er alla daga verið að vaða yfir menn og málefni – það er byggt verksmíðjugímald við rúmstokkinn hjá fólki svo dæmi sé tekið og verkafólk arðrænt af vinnuveitendum og til að kóróna skömmina þá eru opinberar stofnanir að kaupa þjónustu af arðræningjunum vitandi af framferðinu.

Það má velta fyrir sér hvort um metnaðarleysi sé að ræða eða uppgjöf – ég hallast af því síðarnefnda – þeir sem ábyrgðina bera í þjóðfélaginu eru fyrir löngu búnir að gefast upp fyrir auðvaldinu – þess vegna eru mannréttindarbrot daglegt brauð á Íslandi og það er miður þegar réttir og sléttir eru farnir að taka þátt á kostnað samborgaranna.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lifsreyndur eldri borgari.

DEILA