Arnarlax: mótvægisaðgerðir lagðar til vegna eldissvæðis á Óshlíð

Fyrirhugaðar breytingar á ljósgeisla.

Arnarlax hefur sent erindi til hafnarstjórnar í Bolungavík og kynna þar tillögur fyrirtækisins um mótvægisaðgerðir til þess að uppfylla kröfur um siglingaöryggi við fyrirhugað eldissvæði við Óshlíð.

Arnarlax ehf. fékk útgefið rekstrar- og starfsleyfi fyrir 10.000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur eldissvæðum, Óshlíð, Eyjahlíð og Drangsvík í Ísafjarðardjúpi, í maí 2024. Rekstrarleyfið var síðan fellt niður í meðferð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál meðal annars með tilvísun í siglingaöryggi við eldissvæðið við Óshlíð. Vinnur fyrirtækið að því að gera breytingar sem mæta athugasemdum sem gerðar voru.

Niðurstaða áhættumats vegna siglingaöryggis unnið af Vegagerðinni, Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands var að ekki sé ásættanlegt með tilliti til siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á eldissvæðinu við Óshlíð, þar sem það liggur alfarið innan hvítra ljósgeira frá Óshólavita, Arnarnesvita og Æðeyjarvita.

Arnarlax telur ýmsar mótvægisaðgerðir mögulegar sem leitt geta til ásættanlegs siglingaöryggis við eldissvæðið við Óshlíð. Fékk það alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Ramboll til að skoða siglingaöryggi við Óshlíð og voru tillögur þess eftirfarandi:
· Þrengja mögulega hvíta ljósgeira við Arnarnesvita, Æðeyjarvita og Óshólavita.
· Skoða möguleika á nýjum vita t.d. Ögurnes.
· Setja upp blikkljós á baujur
· Notast við sjálfvirkt auðkenniskerfi (AIS) á sjókvíar sem sýnir sjófarendum staðsetningu kvía
· Setja upp radarspegla við eldissvæðið.

Arnarlax hefur auk annarra mögulegra mótvægisaðgerða ákveðið að minnka eldisvæðið við Óshlíð þannig að allt eldissvæðið við Óshlíð verði utan við 5 km. fjarlægð frá eldissvæði Hábrúnar ehf. í Skutulsfirði. Þannig verða fjarlægðarreglur reglugerðar vegna smitvarna uppfylltar gagnvart Hábrún ehf. Myndin sýnir fyrirhugað smækkað eldissvæði.

Minna eldissvæði þýðir betri og rýmri aðstæður til siglinga við Óshlíð miðað við fyrri stærð og
staðsetningu segir í erindi Arnarlax. Við breytinguna mun „suðaustur horn“ svæðisins ekki lengur skaga inn í siglingaleiðina inn Skutulsfjörð og sérstaklega var tilgreint í áhættumati um siglingaöryggi og vísað var til hér að framan.

hafnarstjórn: skynsamlegar mótvægisaðgerðir

Hafnarstjórnin tók erindið fyrir í gær og bókað var:

„Hafnarstjórn Bolungarvíkurhafnar tekur vel í erindi Arnarlax um mótvægisaðgerðir vegna siglingaöryggis við eldissvæði Arnarlax við Óshlíð í Ísafjarðardjúpi.

Hafnarstjórn telur að mótvægisaðgerðirnar séu skynsamlegar og ógni ekki öryggi sjófarenda í Ísafjarðardjúpi.

Mótvægisaðgerðirnar gætu leitt til einhvers óhagræðis í siglingum milli Bolungarvíkurhafnar og Ísafjarðar. Slíkt óhagræði er óverulegt að mati Hafnarstjórnar og mun ekki skerða hagsmuni notanda hafnarinnar til lengri tíma litið.

Uppbygging fiskeldis í Ísafjarðardjúpi er mikilvægt hagsmunamál fyrir Bolungarvíkurhöfn og styður hafnarstjórn þá uppbyggingu. Hafnarstjórn leggur áherslu á að áhættumat siglinga í Ísafjarðardjúpi verði endurskoðað og tekið verði tillit til þeirra mótvægisaðgerða sem fram koma í minnisblaði Arnarlax.“

DEILA