Vikuviðtalið: Þorbjörn H. Jóhannesson

Hér erum við nafnarnir í Kaldalóninu.

Hér er ég, hér vil ég vera.

Ísfirðingar hafa löngum verið þekktir fyrir að gefa bæjarbúum hin ýmsu viðurnefni, og er ég þar engin undantekning. Skírnarnafn mitt er Þorbjörn Halldór, en flestir kalla mig Dodda. Það fer þó eftir því hvort þú talar við núverandi íbúa sveitarfélagsins eða brottflutta, hvort viðskeytið sé „Doddi bæjó“ eða „Doddi á Esso.“

„Doddi á Esso“ er til komið vegna þess að foreldrar mínir ráku Esso-Nesti bensínstöðina á 7. og 8. áratugnum, sem þá var staðsett þar sem Fjórðungssjúkrahúsið er nú. Þessi bensínstöð átti síðar eftir að vera frekari áhrifavaldur inn í mína framtíð þar sem þar kynntist ég eiginkonu minni, Pálínu Jensdóttur, sem vann þar við afgreiðslu. Hún kemur frá Bæjum á Snæfjallaströnd og Kaldalóni. Í Kaldalóni höfum við reist okkur sumarhús, en ég veit fátt betra en að vera þar, þar er lítið sem ekkert símasamband, kyrrð og friður og náttúrufegurðin gífurleg, enda Drangajökull við byrjun lónsins og Ísafjarðardjúp við hinn endann. Við giftum okkur árið 1983 í gömlu Ísafjarðarkirkjunni, en hún brann fjórum árum síðar. Við eignuðumst þrjú börn, Hemma, Hilmar og Gullu, sem nú búa öll í sitthvorum landshlutanum, auk þess sem við eigum tíu barnabörn, en gaman að segja frá því að nafni minn sem sjá má á meðfylgjandi mynd, starfar nú á N1 sem áður var Esso og því má segja að Doddi á Esso hafi gengið endurnýjun lífdaga.

Foreldrar mínir keyptu rauða húsið í Túngötunni nr. 11 og áttu þar heimili þar til pabbi fluttist að Hlíf. Þannig varð ég Túngötupúki. Áður hafði ég lengi vel átt heima í Hrannargötu sem og í Eyrargötublokkinni. Þetta er á árunum þegar Hverfisstríðin voru í hámarki, og á þessum tíma voru ófá prakkarastrikin framin. Mér er minnistætt þegar ég og Steini heitinn Geirs vinur minn áttum þríhjól og við smíðuðum á það segl og í miklu austanroki létum við vindinn ýta okkur áfram á hjólinu út Sólgötuna. Í eitt sinn náði ég svo mikilli ferð, en þá kom bíll sem snarhemlaði og ég rétt náði að beygja frá en rann undir bílinn, og keðjurnar á bílnum staðnæmdust við hálsinn á mér og er ég enn með far á hálsinum eftir þetta. Bílstjórinn var hann Óli í Þór og urðum við miklir vinir eftir þetta. Í annað sinn þegar ég var púki eyddi ég heillöngum tíma í að smíða mér bát og tjarga hann og endaði með að sigla á honum út í Arnardal. Þar var fólk ekki paránægt með þetta uppátæki mitt og var báturinn eyðilagður. Enda verið stórhættulegt, en ég sá alltaf eftir bátnum.  Einnig þótti okkur Steina gaman að stríða einum íbúa í Hrannargötunni, en þar sem hann bjó var hægt að fara inn í húsið að aftan og hlaupa út að framan. Við vorum eitt sinn búnir að fara marga hringi í gegnum húsið þar sem karlanginn var að leggja sig í stofunni. Að endingu fauk nú í minn mann sem elti okkur út, en við eldsnöggir og létum okkur flakka yfir girðinguna og inn í sundið sem var á milli húsanna, karlinn beint á eftir en það fór nú ekki betur en svo að hann festist í veggnum og steinlá í kartöflugarðinum. Það voru ýmis uppátækin sem fengju aldrei að líðast nú í dag. Ég var alltaf vel virkur krakki, og mamma sagði oft að hún þyrfti sko ekki að fara í megrun eftir að hún eignaðist mig — hún hefði nóg að gera við að elta soninn.

Foreldrar mínir voru Guðríður Jóhanna Matthíasdóttir frá Arnardal, oftast kölluð Gulla Matt, sem var Kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Ísfirðinga í mörg ár, og Jóhannes Guðni Jónsson, sem var forstjóri Íshúsfélags Ísfirðinga þar til hann fór á eftirlaun. Ég er yngstur fjögurra systkina, elstur var Guðni Geir hálfbróðir minn sem lést fyrir um ári síðan, en hann var hér virkur í bæjarpólitíkinni um árabil. Þar næst var systir mín Halldóra Matthildur, síðan Jón Sigurður og ég. Pabbi kom 18 ára vestur úr Skagafirði til að vinna hjá bróður sínum, Agnari á Kúabúinu, og keyrði einnig mjólkurbílinn. Í einni slíkri ferð festi hann bílinn í skurði í heimreiðinni út í Arnardal, við mikið bölv og ragn bræðra mömmu. Móðuramma mín sagði þá: „Þessi á nú eftir að festast lengur en þetta hér“ og reyndist hún sannspá þar sem eftir þetta fóru foreldrar mínir að stinga saman nefjum.

Ég er Arndælingur mikill og var oft í Fremrihúsum hjá ömmu minni og móðurbræðrum mínum í æsku. Búskap fjölskyldunnar í Arnardal má rekja langt aftur í ættir. Núna búum við konan mín þar og erum með búfénað. Rollubúskapurinn er mitt aðaláhugamál, og í því starfi er maður að allan sólarhringinn, sífellt að dytta að hinu og þessu. En nú er svo komið að þegar að kemur að því að við konan mín munum bregða búi í Arnardal að þá mögulega verð ég síðasti ættliðurinn til að stunda þar búskap, en það eitt mun tíminn leiða í ljós.

Nýlega hef ég tekið sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn fyrir Í-listann, og hlakka ég til komandi tíma í því hlutverki en ég tel mig vera réttsýnan og þekki jú málefni sveitarfélagsins frá hinum ýmsu hliðum mjög vel, en þá komum við einmitt að seinna gælunafni mínu sem er Doddi bæjó. En það gælunafn fékk ég eftir að hafa unnið hjá sveitarfélaginu, bænum, í 46 ár. Ég hóf störf mín fyrir bæinn árið 1974 sem verka- og tækjamaður. Þá unnu þar menn eins og Torfi Bjarna, Maggi Dan, Siggi Jónasar, Gústi Valda og Fúsi í Salem, en maður lærði mikið af þessum öðlingum. Þetta voru skemmtilegir og góðir menn sem kunnu ættfræði gömlu Ísfirðinganna langt aftur í ættir. Árið 1984 tók ég við stöðu Bæjarverkstjóra, sem ég sinnti í um þrjátíu ár og síðar færðist starf mitt yfir á Bæjarskrifstofuna, þar sem ég var yfirmaður Eignasjóðs til ársins 2020. Eitt það skemmtilegasta við störf mín eru samskipti við íbúana og maður þekkti orðið alla, vítt og breitt um sveitarfélagið. Eitt sinn einn mikinn snjóavetur í kringum árið 1990 hringdi í mig blaðamaður frá Morgunblaðinu og endaði viðtalið á að spyrja hvort það væri nú ekki erfitt að eiga heima þarna á Ísafirði í öllum þessum snjó. Þá svaraði ég eitthvað á þá leið – að það væri nú svo merkilegt með Ísafjörð, það hefur aldrei fennt það mikið að það færi ekki aftur.

Þannig hefur líf mitt verið, fullt af minningum frá þessum stað. Þetta var góður tími sem ég minnist með góðu en einn stærsti kosturinn við að búa í slíku samfélagi sem Ísafjörður og nærsveitir eru, er náungakærleikurinn og hér þekkja allir alla. Það er hlýlegt til þess að hugsa að til dæmis í tengslum við veikindi föður míns sem var þá farinn að tapa áttum, að þegar hann átti það til að fara í göngutúr illa áttaður, tóku kannski bæjarbúar hann upp í og buðu á rúntinn og hringdu svo bara og létu mig vita og skutluðu honum aftur á Eyri. Þetta myndirðu ekki upplifa í höfuðborginni, og tel ég vera mikinn kost fyrir okkar samfélag; samhugurinn, samkenndin og náungakærleikurinn.

Hér er ég fæddur, hér ólst ég upp, hér hef ég alltaf búið og hér ætla ég mér að vera.

DEILA