Slysavarnadeildin Unnur sem starfar innan Landsbjargar hélt sinn árlega aðalfund á miðvikudaginn, þann 19. febrúar í félagsheimili Patreksfjarðar. Mjög vel var mætt á fundinn og gengu 11 nýjar konur í deildina. Nú eru 102 félagskona í Slysavarnsdeildinni Unni á Patreksfirði og er þá orðin fjölmennasta deildin á landinu að sögn Sólrúnar Ólafsdóttur, fráfarandi formanns deildarinnar.
Íbúar á Patreksfirði eru um 700 manns svo mjög stórt hlutfall kvenna á Patreksfirði er í slysavarnadeildinni Unni. Markmið deildarinnar er að vinna að slysavörnum með öflugum forvörnum og styrkja kaup á björgunar og öryggisbúnaði bæði til sjós og lands. Sólrún segir að mjög góð samvinna og félagsandi sé í deildinni og standi konur mjög þétt saman í þeim efnum.
„Síðastliðið ár unnum við t.d að 13 slysavarnaverkefnum í nærumhverfi okkar. Einnig erum við duglegar að fjölmenna á landsmót slysavarnadeilda sem er haldið vítt og breytt um landið. Síðastliðið haust mættu 31 Unnar konur á slíkt landsmót sem var haldið á Ólafsfirði. Þar eru fyrirlestrar,námskeið og mikill fróðleikur fyrir okkur og deilirnar miðla verkefnum sinna deilda til annara. Síðan er uppskeruhátíð á laugardagskvöldinu með góðum mat og skemmtiatriðum sem deildirnar æfa og flytja sjálfar sér og öðrum til skemmtunar. Í öllum félagsskap þarf að blanda saman vinnu og gelði svo hann þrífist og dafni. Maður er manns gaman. Konurnar koma alltaf endurnærðar heim af þessum landsmótum og eru þá tilbúnar í verkefni framtíðarinnar. Ég hef verið í stjórn svd Unnar i 18 ár með hléum og það hefur gefið mér mikið að starfa að slysavörnum. Það hafa allir gott af því að gefa af sér til samfélagsins.í gær afhenti ég Fanney Ingu Halldórsdóttur formennskuna í slysavarandeildinni Unni og óska ég henni velfarnaðar í starfi.“

Hér hafa félagskonur í svd. Unni brugðið á leik á Patreksfirði.