Arnarlax : eigið fé 17 milljarðar króna

Arnarlax hefur birt upplýsingar um afkomu sína í fyrra. Afkoman varð mun verri en árið 2023 og greinilegt að mikill laxadauði vegna lúsafárs á árinu 2023 hafði veruleg áhrif.

Tekjur síðasta árs urðu 39% minni en árið áður eða liðlega 9 milljörðum króna lægri. Tekjur ársins urðu um 15 milljarðar króna og 860 m.kr. tap varð af rekstrinum. Slátrað var 11.700 tonnum í fyrra en 17.900 tonnum árið 2023.

Afkoman á síðasta ársfjórðungi 2024 varð hins vegar mun betri en nemur niðurstöðu ársins og sýndi reksturinn þá jákvæða afkomu.

Erlend verð voru góð fyrir eldisfisk Arnarlax, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði og jókst salan þangað.

Eiginfjárstaða Arnarlax er sterk. Eigið fé er um 17 milljarðar króna og er það 57% af heildareignum.

Á þessu ári er áætlað að slátrað verði 15 þúsund tonnum af eldislaxi.

Arnarlax hefur framleiðsluleyfi fyrir 23.700 tonnum af eldislaxi í þremur fjörðum á sunnanverðum Vestfjörðum. Auk þess hefur verið sótt um leyfi fyrir 4.500 tonna eldi í Arnarfirði og unnið er að því að fá aftur leyfi fyrir 10 þúsund tonna elda á ófrjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi sem Matvælastofnun gaf út en úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi.

DEILA