F. 21. maí 1902 að Hóli Önundarfirði. D. 22. nóvember 1995 í Reykjavík.
Öndvegisverk: Þýðingarverkin; Sonnettur William Shakespeare, 1989. Andalúsíuljóð arabískra skálda, 1994.
Misjafnt er hve mikið er fjallað um listamenn enda eru þeir misjafnlega mikið fyrir athyglina þrátt fyrir að margir álíti að listamenn séu bara sjálfhverfir og tali aðeins um sjálfan sig meira segja í tveggja manna samtali. Listumfjöllun er nauðsynleg og þá ekki síst listamönnunum sjálfum og eigi síður listapparötum allra þeirra er stóla mest á listkaupendur nefnum þar helst leikhúsin, skálda- og myndlistarsenuna. Einn er þó flokkur listamanna sem verður oft utan umfjöllunar og það eru snarararnir, þeir sem færa okkur verk hinna erlendu skálda uppá okkar ilhýra. Já, við erum að tala um þá stétt sem þýðir hin erlendu verk yfir á okkar tungu. Sannlega er það mikil list. Einn úr þessum hópi er hinn vestfirski snarari, lífskúnstner og doktór Daníel Ágúst Daníelsson frá Hóli í Önundarfirði.
Frá líkamlegri til andlegrar glímu
Í upphafi er gott að kynna manninn. Í minningargrein ritaði Björn Þórhallsson um hinn listræna doktór: Daníel var líklega ekki allra manna. Hann var í meðallagi á vöxt, þess tíma. Ennið var hátt og yfirbragðið fullt af alvöru. Nefið í stærra lagi og fagurlega sveigt. Hann hló lítið hversdagslega, en bjó þo yfir dillandi hlátri sem mér er ógleymanlegur. Þegar þessi yfirlætislausi maður hló, þá hreinlega sprakk hann af hlátri og alvarlegu augun hans geisluðu um leið og munnvikin sveigðust í átt til eyrna.
Foreldrar Daníels tóku einmitt snemma sveigju frá Hóli og fluttu til Suðureyrar. Þar tók Daníel snemma þátt í félagsstarfi þorpsins og þótti sérlega liðtækur liðsmaður hjá íþróttafélaginu Stefni var meira að segja formaður félagssins um tíma. Einkum þótti Daníel sundmaður góður en þó eigi síður glímukappi hinn besti. Þrátt fyrir annir íþróttanna gaf hann sér tíma til að nema orgelleik hjá Kristjáni Þorvaldssyni kaupmanni á Súganda. Klaverspilið fylgdi honum svo áfram og út ævinina en einnig þótti hann liðtækur fiðluleikari enda greip hann ósjaldan til músíkspils á heimilinu sínu þar eftir sem hingað til. Árið 1922 er Daníel kominn suður hvar hann sest á skólabekk við Samvinnuskólann og útskrifaðst þaðan tveimur árum síðar. Á sama tíma sat hann einnig myndlistartíma hjá hinum vestfirska listamanni Guðmundi Thorsteinssyni er kallaður var Muggur og ólst upp á Bíldudal. Einsog með músíkina átti teikninginn eftir að fylgja Daníel út ævinina. Drátthæfileiki hans sést vel í teikningu hans af skáldjöfrinum William Shakespeare er birtist í Sonnettuþýðingum hans og svo má einnig geta þess að Daníel teiknaði að hluta hið listræna hús, Árgerði við Dalvík, sem hann og kona hans Dýrleif Friðriksdóttir reistu nær hann gjörðist læknir í Dalvík.
Læknir já. Daníel silgdi til Ammeríku 1925 hvar hann hóf læknanám við Kaliforníu háskóla lauk þó eigi kandídatnámi sínu þar heldur útskrifaðist frá Háskóla Íslands nokkru síðar. Fyrsta læknaembættið var fyrir vestan í hinu harðbýla Hesteyrarhéraði en veran þar var bara tvö ár. Að vestan lá leiðin norður fyrst á Siglufjörð en loks á Dalvík hvar hann læknaði allt til starfsloka 1972.
Listin að snara
Listahjarta og stengur fylgdu ávallt lækninum. Áður var minnst á músíkina og teiknilistina en mikilhæfasta verkið var að snara verkum annarra skálda yfir á íslenskuna. Meistaraverkið er án efa þýðing hans á öllum 154 sonnettum breska skáldjöfursins William Shakespeare er Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út 1989. Einstaklega vönduð útgáfa hvar í upphafi bókar má sjá teikningu Daníels frá 1926 af skáldinu. Einnig er ítarlegur formáli snararans er segir m.a. um verkið: Shakespeare orti Sonnetturnar á rúmum þremur árum (1592 – 1595) flestar í London, nokkrar á ferðalögum með leikflokkum um nærliggjandi héruð en fæstar á heimili sínu í Stratford. Allar voru þær skyldu ljóð (duty sonnets) tileinkaðar og sendar lávarðinum sem var, að þeirrar tíðar hætti, verndari og velgerðamaður (patron) höfundarins.
Fimm árum síðar, 1995, kom síðan út snörun Daníels á Andalúsíuljóðum Arabískra skálda. Hér er eigi síður á ferðinni stórmerkilegt rit sem mikill fengur var og er fyrir okkur til að opna heim heimsbókmenntanna fyrir hinni Íslensku þjóð var sannlega erindi Daníels. Í þrjár aldir, 10 – 12 öld, má segja að Arabíuskáldin hafi átt ljóðasenuna í Spánarlandi. Athygli vekur að skáld þessi voru flest í hæðstu embættum allt frá vesírum til konunga. Yrkisefnið víðfermt allt frá ástum til bardaga og lofsöngva tileiknaði náttúrunni. Allt frá því þau voru sett á blað hafa þau gefið trúabúrdum heims sem skáldum á borð við Federico Carcia Lorca andagiftina en eitt af hans síðustu ljóðaverkum var einmitt undir merkjum arabísk skáldskapar.
Eiginkona Daníels var Dýrleif Friðriksdóttir ljósmóðir og eignuðust þau þrjú börn en fyrir átti Daníel einn son. Barnabörnin urðu svo fjöldamörg og má þar nefna alnafna hins listelska læknis, Daníel Ágúst Haraldsson söngvari hinnar geðþekku hljómsveitar Ný dönsk og GusGus. Víst hefur hann fengist talsvert við textann einsog afi sinn og er m.a. texta höfundur slagara á borð við Alelda og Hunang.

Höfundur: Elfar Logi Hannesson, blekbóndi og leikhúsmaður Dýrafirði
Aðal heimildir: Morgunblaðið 1. 12. 1995. Sonnettur William Shakespeare, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1989. Andalúsíuljóð Arabískra skálda, Mál og menning 1994.

Árgerði við Dalvík.