Á fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðabæjar á mánudaginn kemur fram að lóðinni við Hrafnatanga 4, Ísafirði hafi verið úthlutað til Sjávareldis ehf. og Hábrúnar ehf. á fundi bæjarstjórnar þann 3. maí 2018.
Úthlutuninni fylgdi eftirfarandi bókun: „Lóðarumsókn falli úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 12 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 24 mánaða frá úthlutun.“
Bókað er að haustið 2023 hafi framkvæmdum við uppfyllingu og hafnarkant og hafnarþekju verið lokið og lóðin því tilbúin til uppbyggingar en gögn hafi ekki borist.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að afturkalla lóðaúthlutun Sjávareldis ehf og Hábrúnar ehf. við Hrafnatanga 4, Ísafirði.
Lóðin við Hrafnatanga 4 á Ísafirði var auglýst á heimasíðu Ísafjarðarbæjar frá 28. janúar 2025 með umsóknarfresti til og með 12. febrúar 2025. Ein umsókn barst og var hún frá Ísnum ehf.