Áhaldahúsið á Ísafirði fékk í vikunni afhent glæsilegt saltsíló sem smíðað var í 3X-Technology. Sílóið er notað til að blanda salti í möl og er talsverður vinnusparnaður af því fyrir starfsmenn bæjarins að þurfa ekki að handmoka úr saltpokum eins og gert hefur verið hingað til. Í frétt um hina nýju græju á Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar segir að sjálfsögðu þurfi ekki að sækja vatnið yfir lækinn þegar fyrirtæki eins og 3X eru steinsnar í burtu og var því samið innanbæjar um smíðina.