Goðdalur : friðlýsing fyrirhuguð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025-2029. Í þingsályktunardrögunum er lagt til að sex svæði fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fuglategunda og jarðminja, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. 

Eitt þessara svæða er á Vestfjörðum. Það er Goðdalur í Bjarnarfirði á Ströndum. Um það segir í drögunum:

„Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0.23 km² og er í sveitarfélaginu Kaldrananeshreppi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna móahveravistar, mýrahverarvistar og jarðhitalækja. Verndargildi móahverarvistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.

Svæðið liggur í afskekktum dal inn af Bjarnarfirði og rennur Goðdalsá eftir dalnum. Mýrlent er og flatlendi með aflíðandi hlíðum. Jarðhitalækir seytla um grýttar hlíðar og um flata upp af Goðdalsá. Mýrahveravist einkennir jarðhitagróðurinn en þar sem er þurrara er móahveravist einkennandi vistgerð.“

Þá segir að svæðið sé mjög viðkvæmt og flokkast ekki sem ferðamannastaður og gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið s.s. með fræðsluskilti til að fyrirbyggja traðk. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja.

DEILA