Vesturbyggð: deilt um iðnaðarhúsnæði á Krossholti

Þórður Sveinsson, 50% eigandi að iðnaðarhúsnæði á Krossholti á Barðaströnd fer fram á að Vesturbyggð nýti sér forkaupsrétt að 50% eignahlut í sama húsnæði og selji svo sér þann eignarhlut.

Forsaga málsins er sú að Þórður eignaðist 50% í iðnaðarhúsinu að Krossholti skv. eignarheimild og er þinglýstur réttur eigandi skv. veðbókarvottorði og fasteignaskrá frá og með 14. apríl árið 2000.
Þá hefur hann hegðað sér í öllu eins og hann eigi í raun allt húsið, hefur greitt af því hita, rafmagn og önnur tilfallandi gjöld s.s. fasteignagjöld eins og segir í erindi hans til Vesturbyggðar. Þórður hefu stundað atvinnurekstur í húsnæðinu.

Í fyrra kom í ljós að Jakob Pálsson, sem er skráður fyrir 50% eignarhlut að eigninni seldi hlut sinn félaginu Hafsbrún ehf. Þinglýsing á kaupunum hefur enn ekki gengið í gegn vegna athugasemda frá sýslumanni um að lóðarleigusamningi þurfi að þinglýsa samhliða og Vesturbyggð þyrfti um leið að hafna forkaupsrétti sínum skv. kvöð sem enn er gildandi.

Þá hefur nýr eigandi heft aðgengi að húsinu, lagt fiskikörum fyrir framan hurðir og sent Þórði reikninga inn á hans heimabanka fyrir meintri leigu, ásamt því að saka hann um að meina sér um að nýta sinn helming.

Beiðni um nýtingu forkaupsréttar hafði áður verið tekið fyrir hjá Vestubyggð og afgreidd á 977. fundi bæjarráðs sem haldinn var 6. febrúar 2024 þar sem nýtingu forkaupsréttar var hafnað.

Að höfðu samráði við lögræðing sveitarfélagsins staðfestir bæjarráð nú afgreiðslu fyrrum bæjarráðs Vesturbyggðar og hafnar nýtingu forkaupsréttarins.

Bæjarráð vísar afgreiðslunni áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.

DEILA