Á fundi 1371 í sveitarstjórn Strandabyggðar sem fram fór 10. desember 2024 var tekið fyrir erindi frá Jóni Jónssyni undir dagskrárlið 11. Fulltrúar A lista sveitarstjórnar (minnihlutans) gerðu skíra grein fyrir afstöðu sinni á fundinum, sjá nánar í fundargerð. Fulltrúar T lista (meirihluta) völdu þá leiða að svara ekki erindi Jóns en samþykktu eftirfarandi tillögu:
„Varaoddviti leggur fram tillögu meirihluta um að erindi þessu í heild verði vísað til lögfræðings sveitarfélagsins sem og lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga til skoðunar. Varaoddvita verði jafnframt falið að fylgja málinu eftir.“
Tveimur mánuðum síðar, á fundi 1373 sem fram fór þann 10. febrúar 2025 er kynnt til sögunnar undir dagskrárlið 9, minnisblað frá Birni Jóhannessyni lögmanni varðandi erindi Jóns. Skoðar lögmaðurinn málið út frá eftirfarandi þáttum, tekið beint úr minnisblaðinu:
„Í fyrrnefndu erindi Jóns Jónssonar (hér eftir nefndur álitsbeiðandi) er óskað eftir því að ,,sveitarstjórn Strandabyggðar gefi álit sitt á því hvort framganga oddvita Strandabyggðar og starfsmanna sveitarfélagsins gagnvart mér brjóti í bága við gildandi siðareglur kjörinna fulltrúa í Strandabyggð og ákvæði í starfsmannstefnu Strandabyggðar“. Óskar álitsbeiðandi eftir því að ákveðin tilvik (fésbókarpistlar, bréf, tölvupóstur, viðtal og aðsend grein) verði tekin til skoðunar í því sambandi. “
Minnisblaðið undirritar Björn 10. janúar 2025, fjórum dögum fyrir janúarfund sveitarstjórnar. Það er hægt að sýna því ákveðinn skilning að ekki hafi náðst að gera grein fyrir minnisblaðinu á janúarfundinum en það er erfitt að sýna því skilning að sveitarstjórnarfulltrúar T lista hafi ekki nýtt tímann, heilan mánuð, til að undirbúa og birta afstöðu sína á nýliðnum fundi nú í febrúar.
Hvort einhver fyrirmæli hafi fylgt með þegar varaoddviti sendi erindi Jóns til lögmanns sveitarfélagsins og lögmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga er erfitt að átta sig á enda kemur ekkert fram um það. Tillagan sem borin var fram á fundi 1371 og var samþykkt af fulltrúum T lista bar það eitt með sé að þessum lögmönnum væri falið að „skoða“ erindi Jóns. Það er kannski ekki að undra að lögmenn sambandsins séu ekki búnir að skila neinu, þeir eru væntanlega að „skoða“ málið eins og þeim var falið skv. tillögunni. Það voru engin frekari fyrirmæli eða tímamörk samþykkt eða sett.
Það sem er áhugavert við minnisblað Björns lögmanns er að þar er því alls ekki hafnað að brotið hafi verið í bága við siðareglur kjörinna fulltrúa og ákvæði í starfsmannastefnu Strandabyggðar. Hann leggur það hinsvegar í hendur sjálfra sveitarstjórnarfulltrúa T lista að meta það hvort þeir séu reiðubúnir til að til að gefa Jóni álit sitt líkt og hann fer fram á í erindi sínu og líkt og fulltrúar A listans hafa þegar gert.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni, hvort einhver svör eða viðbrögð berist frá lögmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það má vænta þess að varaoddviti framfylgi skyldu sinni og fylgi því eftir að svör berist eða geri grein fyrir því ef lögmenn sambandsins hafni því að „skoða“ erindið. Það verður jafnframt áhugavert að sjá hvort fulltrúar T lista finni hjá sér kjark til að svara erindi Jóns á einhverjum tímapunkti og þá á hvaða hátt.
Eins og staðan er núna þá hafa fulltrúar A lista gert skíra grein fyrir afstöðu sinni. Björn, lögmaður sveitarafélagsins, hafnar því ekki að brotið hafi verið í bága við siðareglur kjörinna fulltrúa og ákvæði í starfsmannastefnu Strandabyggðar og fulltrúar T lista hafa ekki hafnað því heldur. Svaraleysi fulltrúa T lista er frekar vandræðalegt gagnvart oddvitanum en meðan þau taka ekki skýra afstöðu um annað þá má alveg draga þá ályktun að það sé álit sveitarstjórnar að brotið hafi verið gegn siðareglum kjörinna fulltrúa og ákvæðum starfsmannastefnu Strandabyggðar. Í þá tvo mánuði sem málið hefur legið fyrir hefur að minnsta kosti enginn hafnað því.
Með góðum kveðjum í hækkandi sól,
Andrea K. Jónsdóttir, athafnakona