Fram kemur í erindi til hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá framkvæmdastjóra samtaka skemmtiferðaskipa að um 100 komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa verið afbókaðar vegna innviðagjaldsins sem lögfest var fyrir áramótin. Segir að gjaldtakan hafi verið óvænt og valdi því að Ísland verði frekar litið á sem óstöðugt land og dragi úr umsvifum á landsbyggðinni. CLIA eru samtök skemmtifeðaskipa, Cruise Lines International Association.
Í erindi CLIA kemur fram að skemmtiferðaskip séu ekki í samkeppni við innlenda ferðaþjónustu. Þvert á móti þá skipti skemmtiferðaskipin við innlend ferðaþjónustufyrirtæki og efli starfsemi þeirra. Fjölmargir ferðamenn á skemmtiferðaskipum svo og áhafnarmeðlimir komi fljúgandi til landsins og gisti nokkrar nætur á hótelum í Reykjavík sem þannig njóti góðs af skemmtiferðaskipunum.
Á fundi hafnastjórnar í gær var bókað að hafnarstjórn „mótmælir gjaldtökunni harðlega og krefst þess að gjaldtaka í núverandi mynd verði tekin til endurskoðunar. Haft verði samráð við hagsmunaaðila í því ferli.
Komur skemmtiferðaskipa skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, ekki síst í dreifðum byggðum, og fyrirsjáanleiki þarf að vera í greininni.“