Flumbrugangur fortíðar vandamál framtíðar

Það voru mistök að færa skóla frá ríki til sveitarfélaga – stór mistök !

Þessi tilfærsla bauð upp á mismunun sem öllum mátti vera ljóst í upphafi – en mismunun í þessum málaflokki er lögbrot.

Þetta gerist á sama tíma og mörg sveitarfélög eru að missa sína helstu tekjulind – það er að segja þegar kvötakerfið er smá saman að kippa burðarstoðunum undan atvinnulífinu á landsbyggðinni – og akkúrat þá skikkar ríkið landsbyggðarbörnin í fræðslu-uppeldi hjá þeim sem ekki höfðu fjárhagslega burði til að veita það.

Því hefur oft verið haldið fram að sjávarútvegsstefna þjóðarinnar sé sú fullkomnasta í víðri veröld – því hefði mátt ætla að þetta fullkomna sköpunarverk hafi átt að tryggja þjóðarbúinu auknar tekjur – það má því furðu sæta að ákveðið hafi verið að létta lögbundnum fræðsluskyldum af herðum ríkisins og varpa þeim yfir á aðrar öllu minni að burðum – sem áttu auk þess í vök að verjast vegna minnkandi tekna.

Hafa þeir sem fyrir þessu stóðu einhvern tíman verið spurðir um hvað hafi vakað fyrir þeim með þessum gjörningi og þá hvort hann hafi skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi vegferðar ?

Var grunnskólakerfið kannski talið vera hluti af hinu svokallaða ríkisbákni sem lengi hefur verið þyrnir í augum íhaldsins – og þá lausnin að færa það til og brjóta það niður.

Mennt er máttur segir máltækið. Menntun er undirstaða velferðar – illa upplýst og illa menntuð þjóð er veik þjóð sem á endanum festist í vitahring vanmáttar til allra verka. Vandamálin óleyst eru látin ganga á milli eins og heit kartafla sem enginn vill snerta – svo eru kannski gerðar einhverjar breytingar sem engum gagnast bara svo hægt sé að segja að eitthvað hafi verið gert og vandræðagangurinn heldur áfram því mistök fást ekki viðurkennd – dýrmætur tími og orka fara svo í að dylja mistök á mistök ofan og þá er ótalin kostnaðurinn við að hafa fólk í vinnu sem gerir lítið annað en að finna „flóttaleiðir“ fyrir vanhæfa yfirmenn út úr ógöngum.

Það er nefnilega svo þegar vandamálin eru látin ganga á milli  eins og fágætir erfðagripir þá er oftast verið að hlífa „merkilegu“ fólki sem á þar sök – það telur sig hins vegar laust allra mála þegar búið er að varpa vandamálunum í margfeldi yfir á aðra. Svona er ábyrgðarleysið í sinni tærustu mynd – vaðandi um alla stjórnsýslu almenningi til trafala og tjóns.

Þjóðinni er því oft gert að fóstra vandamál jafnvel í áratugi sem sprottinn eru upp úr mistökum þeirra sem telja sig ekki þurfa að axla ábyrgð á eigin gjörðum.

Hvítflibba-yfirsjónir svo pent sé til orða tekið eru best varðveittu opinberu leyndarmálin á Íslandi – þau eru jafn djúpt grafin í kerfinu og morðið á Kennedy í því bandaríska og fást ekki afhjúpuð fyrr en áratugum eftir að allir eru gengnir sem að komu –  svo ekki komi rispur á „frontin“ hjá þeim „fínu“ – það má svo í fjarlægri framtíð kenna tíðaranda um.

Það eru flestir sammála um að kennarar séu vanmetnir til launa. Þessi mikilvæga stétt sem hefur á liðnum árum verið að fá í fangið hvert áskorunarverkefnið á fætur öðru sem hefur þurft að fella inn í skólastarfið jöfnum höndum samhliða hefðbundinni kennslu er sannarlega verðug mannsæmandi launa. – Baráttukveðjur til þeirra !

Verkefnum er vísað inn í skólanna án þess að því er virðist að búið sé að útfæra þau á nokkurn hátt né aðlaga að skólastarfinu svo þau valdi ekki röskun þar á. 

Þarna hafa einhverjir verið að ýta vandamálum út af sínum skrifborðum yfir til skólanna í stað þess í samráði við kennarana að finna einhverja millilendingu fyrir verkefnin þar sem þau væru undirbúin og aðlöguð að skólastarfinu.

Margir líta svo á að skólarnir séu uppeldisstofnanir – sem þeir eru ekki – það er hlutverk foreldra að sjá um uppeldið. Það má hins vegar telja nokkuð víst að nemendur beri með sér vandamálin heima fyrir í skólann – svo sem fjárhagsáhyggjur og þá þjóðfélagsástandið hverju sinni að birtast í líðan og hegðun nemenda – því ekki ósennilegt þegar illa árar að kennarar þurfi að eyða miklu tíma í að takast á við hegðunarvandamál af ýmsum toga.

Það hafa margar misráðnar ákvarðanir verið teknar á Alþingi íslendinga í gegnum tíðina – mistök sem ekki hafa fengist leiðrétt – þau hafa bara verið fléttuð inn í tilveru almennings sem sjálfsögðum – í sumum tilfellum sem sér íslenskum hefðum – eins og til dæmis verðtrygging lána og veðsetningaréttur á aflaheimildum.

Það er freistandi að ætla að mistökin sum hafi verið með vilja gerð – mistök sem hafa átt að þjóna ákveðnum sjónarmiðum en ekki endilega fjöldanum – og þá litið svo á að eðlilegt væri að fórna einhverju í þágu þeirra guðsútvöldu í heimi forréttindana og klípa kannski smá hér og þar af velferðarþjónustunni – eftir þörfum.

Öll höfum við eflaust í angist fylgst með fjöldamorðunum á Gasa – þar má sjá yfirgang í sinni hryllilegustu mynd – yfirgang sem blessaður er af einni valdamestu þjóð í heimi – þjóð sem fengið hefur afdrep í bakgarði íslendinga með sín stríðstól – þar sem hún getur í næði undirbúið útrás til landvinninga á sama tíma og hún skipuleggur útivistarparadís fyrir lúxusfólk á blóðakrinum á Gasa. – Slík óhæfa verður vart endurtekin ef framtíðin ætlar að læra eitthvað af mistökum fortíðar. Þessi smekkleysa undirstrikar óumdeilanlega hversu mannslífin eru lítils metin þegar peningar og völd eru annars vegar. Það má aldrei verða sjálfsagður hlutur að fórna mannslífum í hagræðingar og ábataskyni – virðingar og siðleysið er það sama hvort sem um eitt er að ræða eða milljón. 

Með hátíðlegum helgisvip sem helst má sjá á trúarlíkneskjum sverja frambjóðendur í aðdraganda kosninga að uppræta ósiði og mistök andstæðinga sinna – en svo verður eitthvað minna um efndir þegar á hólminn er komið – þá eiga opinber kosningaloforð það til að umbreytast í einhvers konar öfugmælavísur – kannski vegna þess að þau hafa ekki þótt eiga samleið með þeim loforðum sem gefin hafa verið í bakherbergjum – þar sem gæla má við persónulega ávinninga.

Hrossakaup eru alkunn í íslenskri pólutík – svona gerast kaupin á eyrinni er sagt og glott – rétt eins og um smá daður hafi verið að ræða en ekki framtíð og velferð þjóðar.

Við sem þjóð erum ekki í góðum málum þegar kjörnir fulltrúar eru farnir að versla með velferð  – hvort sem um einhverja hópa er að ræða eða heildina. Skemmdu eplin smita út frá sér þegar samherjarnir fara að verja þau og þá um leið að selja sig undir ákveðin skilyrði sem setja þeim mörk til framfara í þágu þjóðar – kaupin á eyrinni eru þá komin með völdin og komin í aðstöðu til að framfylgja því er um var samið í prívat samtali.

Það þjónar enginn tveimur herrum svo vel sé – það ættu þeir að hafa í huga sem heitið hafa að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar við störf sín á Alþingi.

Það er ekki eftirsóknarvert að lifa í blekkingarheimi þar sem samviskunni hefur verið úthýst. þar sem blekkingum er beitt þar er fátt í lagi – þær gefa þeim sem lifa í veruleikafirrtri „ævintýraveröld“ forskot í lífsgæðakapphlaupinu á meðan hinir bíða við „ráslínuna“ eftir grænu ljósi frá duttlungasveitinni í seðlabankanum – sem lætur stjórnast af – guð má vita hverju !

Það er ástæða fyrir því að svo mörg íslensk ungmenni eru föst í foreldrahúsum langt fram á fullorðinsár – í vonleysi rænd þeirri eftirvæntingu sem fylgir framtíðarplönum æskunnar.

Við þurfum ríkisstjórn sem lætur ekki stjórnast af hræðsluáróðri, kúgunartilburðum og frekju auðvaldsins – fasistaríki eru ekki nein fyrirmyndarríki – en það kallast þau ríki þar sem stjórnvöld ganga fyrst og fremst erinda peningavaldsins á kostnað heildarhagsmuna.

Það hafa margir lengi reynt að vara við uppgangi peningaaflanna í heiminum – afla sem nú eru komin með bífurnar upp á borð í Hvíta húsinu – þessu öfl eru með sterkt tengslanet út um heim allan og við getum verið alveg viss um að Ísland er fyrir löngu komið inn á þeirra kort svo ríkt sem það er af auðlindum – svo kannski hefur aldrei verið meiri þörf en nú fyrir ábyrga og trausta stjórn.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari. 

DEILA