Hver er ég?
Ég heiti Halla Signý og er dóttir hjónana Árilíu Jóhannesdóttur og Kristjáns Guðmundssonar og er frá Brekku á Ingjaldssandi. Ég er 11. í röðinni af 12 börnum og yngst 10 barna þeirra hjóna sem komumst upp. Fædd 1964 þann 1. maí, veturinn hafði verið mildur og mamma og pabbi tíndu fjallagrös á Sandsheiðinni þegar mamma skutlaðist yfir á Flateyri í lok apríl til að eiga mig.
Líklega hef ég ekki verið á dagskrá, til var ritgerð heima sem pabbi skrifaði á unglingsárunum þar sem hann viðraði framtíðarsýnina. Hann ætlaði auðvitað að verða bóndi á Brekku, eiga tvö börn strák og stelpu og lifa á landsins gæðum í fallegum dal. Hann stóð við það en eignaðist sex stelpur og sex stráka með mömmu sem ætlaði að verða söngkona. Stelpuskottið sem fæddist í torfbæ á Bessa í Dýrafirði ólst upp frá sjö ára á Flateyri og fór í vist í henni stóru Reykjavík hjá henni frú Sigurðsson sem var skosk söngkona og kenndi söng. Hún heyrði að stúlkan að vestan hafði fögur hljóð þegar hún söng við uppvaskið og tók hana í kennslu. En eins og frú Árilía sagði „mamma hringdi og vildi að ég kæmi vestur til að mjólka beljuna því hún var ein með börnin, pabbi á sjó og amma lögst í rúmið, en svo elskaði ég bara hann pabba þinn svo mikið að ég kaus að fara vestur aftur“.
Þannig var það og saman voru þau sátt við barnahópinn sinn og húsmæðraskólagengna mamma söng og bakaði tólf sortir fyrir jólin og og pabbi ræktaði sauðfé og gekk um fallegu fjöllin sem umlukti okkur á þrjá vegu á Sandi. Þau elsku hvort annað, okkur barnahópinn, lífið og tilveruna.
Ég gekk í barnaskóla á Ingjaldssandi fram til 13 ára aldurs og þá lá leiðin í héraðsskólann að Núpi, það þýddi ekkert að gráta heimþrána í koddann, maður var jú orðin fullorðin og varð að standa sig enda bauð Sandsheiðin ekki upp á hægt væri að sækja framhaldsmenntun frá Sandi.
Búseta og störf
Þó heima sé alltaf Brekka á Ingjaldssandi hef ég átt mörg góð „heima“. Þegar ég var búin að prufa að fara í framhaldsskóla í Reykjavík, vinna í sláturhúsinu og frystihúsinu fór ég til Bolungarvíkur, vann í sparisjóðnum hjá Sólberg og kynntist manninum mínum honum Sigga Gumma, sem er Bolvíkingur af líf og sál. Þar eignaðuðumt við okkar fyrsta heimili, fluttum síðan á Kirkjubóli í Bjarnardal og hófum búskap vorum þar með hléum til ársins 2001 er við fórum í Borgarnes þar sem ég fór í nám að Bifröst og Siggi Gummi í lögguna í Borgarnesi. Það var gott að búa í fallega Borgarfirðinum en Vestfirðingarnir söknuðu heimahagana og heim héldum við með reynsluna og ég með viðskiptaprófið frá Bifröst. Ég tók við fjáramála- og skrifstofustjórastarfi árið 2005 hjá Bolungarvíkurkaupstað. Þar fékk ég að starfa við það sem ég hafði áhuga á. Ég hef alltaf haft áhuga á félags- og samfélagsmálum og þegar maður starfar að sveitastjórnarmálum er manni fátt óviðkomandi, hvort sem það er að koma að uppbyggingu varnargarða eða redda peru í félagsheimilið. Vinna að málefnum íbúa allt frá leikskóla að málefnum eldri borgara er gefandi og krefjandi. Mér þótti gott að búa í Bolungarvík, samfélagið sterkt og landslagið fallegt með Þuríði í Óshyrnunni sem vakir enn yfir og mun vonandi standa sína plikt áfram. Bolvíkingar standa fast á sínu, mesta ógn margra var að „helvítis bæjastjórinn væri nú að fara inneftir til að sameinast þeim sem sjá ekki sólina nema rétt yfir hádegið“ Sjálfstæðir og sjálfbjarga það kemur þeim langt og standa saman þegar á reynir.
Svo rann upp árið 2017 og það komu kosningar til Alþingis, ég ákvað að láta reyna á eftirspurnina. Það fór svo að ég var kosin inn og þar var ég í sjö ár eða tvö kjörtímabil. Það var skemmtilegur og krefjandi tími. Að reka sveitarfélag er eins og reka stórt heimili, allir íbúar koma manni við og líkt og í heimilisrekstri er engin undanskilinn. Heildin er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Sama má segja um ríkið nema mengið er stærra.
Ég er þakklát fyrir þennan tíma. Á þingi sitja skemmtilegar einstaklingar sem gaman er að kynnist, auðvitað allskonar fólk en allir brenna fyrir sínu og þá er alltaf fjör. Ég verð alltaf þakklát að fá að starfa fyrir okkar kjördæmi og fá að kynnast fólki og aðstæðum, þar býr mikill kraftur. Sérstaklega var ánægulegt að verða vitni að þeirri uppbyggingu og vexti sem hefur verið hér á Vestfjörðum síðastliðinn áratug.
Staðan í dag
Ó fjörður okkar fóstursveit, við finnum yndi hér, sagði Guðmundur Ingi í fallegu ljóði um Önundarfjörð. Við Siggi Gummi erum sammála um það. Nú búum við í Holti í Önundarfirði ég orðin verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða yfir verkefninu Gefum Íslensku séns, sem er spennadi verkefni sem við ætlum að útfæra og útbreiða með því að byggja betur undir þátttöku erlendra íbúa í samfélaginu. Með fjölbreytileikan að vopni stöndum við sterkari saman.
Fjölskyldan
Þegar mamma gekk með sitt áttunda barn eignaðist hún rafmagnsþvottavél og varð að orði „nú get ég eignast átta börn í viðbót“ en hún stóð ekki við það, þegar ég gekk með mitt fjórða barn eignaðist ég þurrkara þá sagði ég „ nú get ég eignast fjögur börn í viðbót“ en ég stóð ekki við það. Svo alsæl með mín fjögur og þau hafa gefið mér níu barnabörn sem fylla líf okkar Sigga Gumma sannarlega gleði og verkefnum. Fjölskyldan er stór og líka á ég ítök í krökkum sem komu til okkar í sveit og hafa svo sem ekkert farið langt frá okkur síðan. Svoleiðis vil ég sjá lífið, með mitt milli vestfirskra fjalla.
Ég þakka áheyrnina, góðar stundir.