Guðrún Hafsteinsdóttir hittir sjálfstæðismenn á Vestfjörðum

Frá fundinum á Isafirði.

„Ég finn að samfélagið hérna fyrir vestan er komið í sókn, eftir varnarbaráttu til áratuga,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir í samtali við Bæjarins besta. Guðrún er nú á ferðalagi um landið að hitta sjálfstæðismenn í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem nýr formaður flokksins verður kjörin. Guðrún lýsti yfir framboði á fjölmennum fundi í Kópavogi síðastliðna helgi. 

Guðrún hélt í gær og í dag fundi með sjálfstæðismönnum á Bolungarvík, Ísafirði, Bíldudal og nú síðast á Patreksfirði. Vel var mætt á fundina og segir Guðrún hana hafa náð góðu samtali við fólkið, en að samtalinu sé hvergi nærri lokið. 

Aðspurð segir hún að samgöngumál, áframhaldandi þróun atvinnuvega og uppbygging innviða hafi helst brunnið á viðstöddum. „Hér hafa mörg spennandi störf orðið til, ekki bara í fiskeldinu með beinum hætti heldur einnig í þjónustu í kringum þessa vaxandi atvinnugrein og það er gaman að sjá þetta kraftmikla uppbyggingarstarf,“ segir Guðrún. 

Guðrún segir mikilvægt að samgöngur verði bættar og efldar samhliða þessari uppbyggingu. Hún segist jafnframt sem þingmaður hins víðfeðma Suðurkjördæmis oft hafa talað fyrir því að uppbygging samgöngumannvirkja taki mið af þörfum íbúa og öryggi þeirra, sem og þörfum atvinnulífsins – og á Vestfjörðum er þörfin brýn. „Það á ekki að gerast að atvinnutækifæri renni okkur úr greipum vegna þess að vegir og brýr duga ekki til.“ 

Guðrún segir það líka vera ábyrgðarhluti að hámarka nýtingu dýrra samgöngumannvirkja. „Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði þarf að hugsa sem eitt, því göngin nýtast ekki til fulls ef heiðinni er ekki haldið opinni til jafns við aðrar helstu stofnbrautir landsins.“

Frá fundinum í Bolungavík.

Guðrún Hafsteinsdóttir á Bíldudal.

Fjórði fundurinn í fundaöðinni var á Patreksfirði í gær.

Myndir: aðsendar.

DEILA