COVID-19: Fimm árum síðar

Fyrir rúmum fimm árum var tilkynnt um fyrstu tilfelli lungnabólgu af óþekktum orsökum í Wuhan í Kína. Þetta markaði upphaf heimsfaraldurs sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á heilsufar, efnahag og velferð í heiminum.

Í lok janúar og í febrúar 2020 barst veiran til Evrópu og fyrstu tilfelli voru staðfest á Ítalíu, í Frakklandi og Þýskalandi. Fyrsta staðfesta tilfellið í Bandaríkjunum var greint í Washington fylki.

Eftir faraldur í Lombardy og Veneto varð Ítalía miðpunktur faraldursins í Evrópu. Veiran dreifðist hratt um álfuna vegna ferðalaga og töfum á að gripið var til aðgerða.
Fyrsta tilfellið á Íslandi var greint 28. febrúar 2020 hjá íslenskum karlmanni á miðjum aldri sem kom frá skíðasvæði í Norður-Ítalíu. Hann var með væg einkenni en var settur í einangrun á sjúkrahúsi til öryggis. Fyrsta innanlandssmitið var svo greint 6. mars 2020.
Veikindi af COVID-19 voru alvarleg og sum ríki Evrópu gripu til ýmissa aðgerða í mars 2020 til að sporna við dreifingu smita, m.a. lokana og ferðatakmarkana. Stórir faraldrar brutust á sama tíma út í mörgum stórborgum Bandaríkjanna.

Þegar mest var árið 2021 bárust Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) tilkynningar um 100,000 COVID-19 tengd dauðsföll í hverri viku. Fjöldi tilkynntra tilfella á viku náði hins vegar hámarki rúmlega 20 milljónum snemma árs 2022 með tilkomu Omicron afbrigðis. Frá árinu 2020 hafa að minnsta kosti 7 milljón COVID-19 andlát verið tilkynnt til WHO, þó að raunverulegur fjöldi dauðsfalla sé að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri að því er kemur fram í samantekt Sóttvarnalæknis.

Enn eiga öll áhrif heimsfaraldursins eftir að koma í ljós. Hins vegar er mikilvægt að draga lærdóm af þessari reynslu og tryggja að við séum betur undirbúin fyrir heimsfaraldra í framtíðinni.

DEILA