Þyrlusveit kölluð út vegna veikinda norður af Hornströndum

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna veikinda um borð í íslensku skipi sem statt var um 60 sjómílur norður af Hornströndum í gærmorgun. 

Áhöfnin á TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á níunda tímanum en þegar farið er í útköll sem þessi er önnur þyrluáhöfn sett í viðbragðsstöðu í Reykjavík, til að gæta fyllsta öryggis. Laust fyrir klukkan tíu var þyrla Landhelgisgæslunnar komin að hlið skipsins. 

Áhöfn þyrlunnar byrjaði á að slaka tengilínu niður til áhafnar skipsins og sigmaður seig því næst um borð svo unnt væri að undirbúa sjúklinginn undir að vera hífður um borð í þyrluna.

Hífingin gekk vel og skipverjinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Gæsl­unni. 

DEILA