Riða greindist ekki á árinu 2024

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur Tilraunastöð HÍ að Keldum nú lokið rannsóknum á öllum heilasýnum sem tekin voru á árinu 2024.

Klassísk riða fannst ekki í neinu sýni.

Tvö sýni, sitt frá hvorum bænum, reyndust jákvæð vegna afbrigðilegrar riðu (NOR98) en slík greining kallar ekki á aðgerðir.

Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur.

Á Íslandi hefur riðuveiki eingöngu greinst í sauðfé, en víða í Evrópu finnst sjúkdómurinn ekki síður í geitum. Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½-5 ára.

Eftirlit með uppkomu riðu er framkvæmt með sýnatökum, bæði úr heila og í sumum tilfellum eitlum, úr kindum sem drepast eða eru felldar heima á bæjum og úr ákveðnum fjölda sláturdýra.

DEILA