24% vinnuafls með erlendan bakgrunn

Yfir landið sem heild hefur orðið fjölgun í hlutfalli vinnuafls með erlendan bakgrunn og árið 2024 var hlutfall starfandi með erlendan bakgrunn 24% fyrir landið allt.

Hér skera Suðurnesin sig einnig úr en þar voru um 37% allra starfandi með erlendan bakgrunn á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Lægst var hlutfallið á Norðurlandi en þar voru innflytjendur
einungis um 15% allra starfandi árið 2024 og þónokkuð undir landsmeðaltali.

Á Vestfjörðum var um 27% vinnuaflsins árið 2024 með erlendan bakgrunn. Var það næsthæsta hlutfallið á landinu. Á Suðurlandi og Austurlandi var hlutfallið um 25% og hærra en landsmeðaltalið.

Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um íslenskan vinnumarkað árið 2024.

Vinnuaflið, þ.e.a.s. allir starfandi og atvinnulausir, voru um 237.300 manns að meðaltali árið 2024 og fjölgaði um rúmlega 10.000 manns frá fyrra ári samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Það var fjölgun um 4,5% milli ára sem er umfram fjölgun mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára) yfir tímabilið.

DEILA