![Reykjavíkurflugvöllur](https://www.bb.is/wp-content/uploads/2020/06/Reykjavikurflugvollur_MWL-1-696x462.jpg)
Langvarandi aðför að Reykjavíkurflugvelli hefur leitt til þess að lokað hefur verið annarri af tveimur flugbrautum vallarins. Fyrir vikið skerðist notagildi flugvallarins verulega og er vegið alvarlega að öryggisþættinum. Sjúkraflug er í nokkru uppnámi og þeir sem því sinna kalla á tafarlausar aðgerðir til úrbóta.
Þessi staða er afleiðing margra ára markvissrar stefnu pólitíska afla í borgarstjórn Reykjavíkur sem vilja flugvöllinn burt. Þau vilja byggja húsnæði á svæði vallarins og fá af því ríflega tekjur í borgarsjóð. Ríkið á hins vegar að kosta háum fjárhæðum til þess að byggja nýjan flugvöll einhvers staðar lengra frá eina stóra sjúkrahúsi landsmanna en nú er. Lífsnauðsynlegur greiður aðgangur að sjúkrahúsi, meðal annars fyrir íbúa landsbyggðarinnar, er látið víkja í þessum hráskinnaleik fyrir tekjum borgarinnar af sölu byggingaréttar.
Síðastliðið haust ákvað þáverandi Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir að færa skyldi girðingu við flugvöllinn og minnka svæði hans. Það þrengir að starfsemi flugvallarins. Ætlunin er að byggja íbúðahverfi í Skerjafirðinum og á fundi Flugmálafélags Íslands, sagði framkvæmdastjóri innanlandsflugs Isavia að það væri hreinlega galin hugmynd. Tekist er á um þetta enn og núverandi samgönguráðherra er þessu andvígur. Hvort takist að stöðva þessi áform er óvíst. Í borgarstjórninni eru nokkrir flokkar að vinna að þessum byggingaráformum enda vilja þeir völlinn burt.
Uppbygging íbúahverfis á Hlíðarenda hafa þrengt að flugvellinum og skapað vanda fyrir flugið um hann, hvort sem er áætlunarflug eða sjúkraflug. Búarsmíði frá Kársnesi í Skerjafjörð með tilheyrandi umferð er ekki til bóta.
Nú er tekist á um það hvort flugvöllurinn verði í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar næstu árin eða ekki.
Það er löngu ljóst að fella þarf tré í Öskjuhlíðinni sem hafa vaxið það hátt að þau hindra öruggt aðflug. Engu að síður hefur Reykjavíkurborg þráast við og gripið til vífillenginga og tafaaðgera með þeim fyrirjáanlegum afleiðingum að loka varð neyðarflugbrautinni. Um er að ræða skipulagðar og markvissar aðgerðir til þess eins að skaða notagildi flugvallarins.
Nú er nóg komið. Þessari aðför að Reykjavíkurflugvelli verður að linna. Ríkisstjórnin og borgastjórn Reykjavíkur verða að taka af skarið og gefa það út að flugvöllurinn verði áfram. Ekki bara fyrst um sinn heldur til langrar framtíðar. Flugvöllurinn er ekkert að fara neitt, það er ekki til neitt annað flugvallarstæði og það eru ekki til á annað hundrað milljarðar króna til þess að ráðstafa í nýjan flugvöll. Það er til nóg byggingaland á höfuðborgarsvæðinu og flugvöllurinn getur verið áfram þar sem hann er. Og það sem mestu máli skiptir fyrst var ákveðið að byggja nýjan Landspítala á þessu svæði við flugvöllinn þá verður völlurinn ekki færður.
Staðan er óviðunandi. Notagildi vallarins er skert með hverri aðgerðinni og nú er svo komið að ef ekki verðu bætt úr þá er notagildi vallarins og sérstaklega öryggisþátturinn alvarlega skert. Innan fárra ára verðu flugvöllurinn að óbreyttu farinn.
En vilji andstæðingar Reykjavíkurflugvallar halda áfram að vinna að því að bola vellinum burt þá er rétt að benda á að það mun hafa afleiðingar. Án Reykjavíkurflugvallar verður krafist meiri uppbyggingar á heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Sjúkrahúsið á Ísafirði verður að vera einhvers megnugt ef aðgengi að Landspítalanum er torveldað. Stjórnsýsla landsmanna getur ekki verið öll í Reykjavík ef þarf að fljúga fyrst til Keflavíkur. Reykjavík getur ekki verið höfuðborg landsins. Það eru skilaboðin sem ríkisstjórnin og borgarstjórnin þurfa að átta sig á.
![](https://www.bb.is/wp-content/uploads/2025/02/KHG_2016-14-tbl-011-Copy-1024x1004.jpg)
-k