Í tilefni af því að 11.2 dagurinn er í dag langar mig að koma á framfæri smá hugleiðingu.
Við mæðgur, Ebba Þórunn og ég fengum útnefningu til skyldihjálparmanns ársins 2024. Það er okkur sannur heiður að vera útnefndar þó það sé að sjálfsögðu ekki að eigin vali að við komumst í þessi úrslit. Það er nokkuð sem enginn vill lenda í að þurfa að halda lífi í sínum nánustu þangað til viðbragsaðilar koma.
Við þessi tímamót langar mig fyrir okkar hönd, að þakka fyrir þá frábæru vinnu sem Rauði krossinn vítt og breitt um landið leggur fram við að halda úti námskeiðum í skyndihjálp fyrir allan almenning og hvetja alla til þess að fara á þessi námskeið. Ef einhver hefði spurt mig fyrir atburðinn erfiða síðastliðið sumar þegar maðurinn minn fór í hjartastopp heima hjá okkur um miðja nótt, hvort ég kynni skyndihjálp hefði ég verið í vafa. Jú ég hef á undanförnum 40 árum þrisvar farið á stutt námskeið, prófað að hnoða og blása en kann ekkert mikið, hefði verið svarið. Ebba var á námskeiði í Menntaskólanum síðasta vetur og hafði því líka grunnþekkingu. En þegar á hólminn var komið var þessi kunnátta þarna og með aðstoð starfsmanns neyðarlínunnar tókst okkur að halda sjó þar til yndislegir viðbragsaðilar komu frá Ísafirði.
![](https://www.bb.is/wp-content/uploads/2025/02/ebba-683x1024.jpg)
Höldum áfram að einbeita okkur að því að skyndihjálparkennsla sé aðgengileg öllum og hlúum að þeirri kennslu, Það sýndi sig í okkar tilfelli að grunnnámskeið í skyldihjálp bjargaði mannslífi.
Að lokum eru hjörtu okkar full þakklætis til allra þeirra sem komu að okkar máli, viðbragsaðilar bæði fyrir vestan, sunnan og norðan (sjúkraflugvél), starfsfólk sjúkrahúsa, vinir og fjölskylda án ykkar allra værum við ekki í svona góðum málum í dag.
Takk
Herdís A. Jónsdóttir