Heimastjórn Patreksfjarðar: gerir alvarlega athugasemd við að auglýsa ekki stöðu hjá Vestfjarðastofu

Heimastjórn Patreksfjarðar gerir alvarlega athugasemd við þá ákvörðun Vestfjarðastofu að auglýsa ekki stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum lausa til umsóknar og beinir því til stjórnar Vestfjarðastofu að tryggt verði að öll störf Vestfjarðastofu séu auglýst, hvort sem um er að ræða störf sem eru staðbundin eða óháð staðsetningu.

Heimastjórnin sendi fyrirspurn til stjórnar Vestfjarðastofu um mögulegar breytingar á stöðugildum hjá Vestfjarðastofu og hvort stæði til að auglýsa lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum. Í bókun stjórnar Vestfjarðastofu kemur fram að stjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um að fækka stöðugildum hjá Vestfjarðastofu en fjöldi stöðugilda sé háður verkefnastöðu hverju sinni. Fjöldi starfsmanna á hverri starfstöð geti einnig verið mismunandi. Þó sé stefnt að því að ekki séu færri en tveir verkefnastjórar
starfandi á sunnanverðum Vestfjörðum og tveir á Ströndum/Reykhólum hverju sinni.

Að fengnum svörum stjórnar Vestfjarðastofu bókaði heimastjórn Patreksfjarðar að með vísan til svarsins standi ekki til að auglýsa til umsóknar lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum og gerir alvalega athugasemdir við það.

Hins vegar er því fagnað því að gengið hafi verið frá ráðningu verkefnastjóra farsældar og ítrekað mikilvægi þess að ávallt sé tryggt að tveir starfsmenn Vestfjarðastofu séu jafnan á hverju svæði innan starfssvæðis Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu.

DEILA