Fyrir bæjastjórn Ísafjarðarbæjar var lögð í síðustu viku sú tillaga að reglur um úthlutun byggðakóta verði óbreyttar frá síðasta ári. Um er að ræða 947 tonna þorskígildiskvóta auk 169 tonn sem ónotuð voru frá fyrra ári sem skiptast á fjögur byggðarlög innan sveitarfélagsins, Ísafjörð, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Að þessu sinni kemur enginn byggðakvóti í hlut Hnífsdals.
Ágreiningur kom fram í bæjarstjórninni varðandi skilmála úthlutunarinnar. Lagt var til að sem fyrr væri nægjanlegt að landa byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins en Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins bar fram breytingartillögu á þann veg að byggðakvótann yrði að nýta til vinnslu í sama byggðarlagi og kvótinn væri merktur, en ekki einhvers staðar innan sveitarfélagsins.
Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður, ritaði grein á Bæjarins besta í síðustu viku og segir þar að nokkur störf hjá Walvis Ehf sem séð hefur um löndun og slægingu á Flateyri hafi tapast vegna hráefnisskorts. Byggðakvóti Flateyrar hefur verið úthlutað til Íslandssögu ehf á Suðureyri. Gísli Jón segir að nú sé engin starfandi fiskvinnsla á Flateyri og engin löndunar þjónusta og að þessar sérreglur valdi því.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frestaði afgreiðslu reglanna um byggðakvóta til næsta fundar.