Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að Veðurstofan hafi loksins hafið vöktun með snjóflóðahættu á Raknadalshlíð og að nú séu send út sms til vegfarendur ef óvissuástand er á hlíðinni vegna ofanflóðahættu. Heimastjórnin bendir þó á að slíkri vöktun sé ekki til að dreifa á Kleifaheiði og þar hafa komið upp erfiðar aðstæður vegna ofanflóða m.a. á síðustu vikum.
Fjölmörg snjóflóð hafa fallið á vegina síðustu vikur.
bæta þarf fjarskiptasamband
Þá hefur heimastjórnin miklar áhyggjur af því að enn hefur ekki verið bætt fjarskiptasamband á Raknadalshlíð og á Kleifaheiði. Um mikilvægt öryggisatriði er að ræða, sérstaklega á þessum árstíma og nauðsynlegt að bætt verði úr því sem allra fyrst til að tryggja öryggi vegfarenda.
Mikil umferð er á þessum vegköflum, en daglega fara leik- og grunnskólabörn frá Barðaströnd um veginn yfir vetrartímann. Það ætti því að vera, að mati heimastjónarinnar, algjört forgangsmál Vegagerðar, Almannavarna og Fjarskiptastofu að tryggja öryggi vegfarenda með því að fjarskiptasamband á þessari leið sé fullnægjandi.
tryggja öryggi til framtíðar
Þá segir í bókun heimastjórnainnar:
„Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur áður skorað á Vegagerðina að fundin verði framtíðarlausn til að verja vegfarendur sem aka um Raknadalshlíð.
Heimastjórn Patreksfjarðar skorar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að nú þegar verði hafin vinna við að tryggja öryggi vegfarenda um Raknadalshlíð til framtíðar, hvort sem er með nýju vegstæði eða öðrum lausnum sem eru til þess fallnar að tryggja í eitt skipti fyrir öll, öryggi vegfarenda sem fara um Raknadalshlíð. Fram að þeim tíma verði tryggð fullnægjandi ofanflóðavöktun á Raknadalshlíð og á Kleifaheiði. Þá verði ofanflóðaspár fyrir Raknadalshlíð og á Kleifaheiði unnar og útgefnar með reglulegum hætti eins og gert er á öðrum svæðum um landið þar sem mikil hætta er á ofanflóðum.“