Ísafjörður: Tangi hlýtur Orðsporið 2025

Frá athöfninni í gær. Mynd Ágúst Atlason.

Leikskólinn Tangi á Ísafirði hlýtur Orðsporið 2025, viðurkenningu Kennarasamands Íslands, á Degi leikskólans fyrir að vera leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi.

Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans eru veitt árlega á Degi leikskólans, 6. febrúar. Sjötti febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans en á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara með sér sín fyrstu samtök.

Í ár kemur Orðsporið í hlut leikskólans Tanga, leikskóla fyrir fimm ára börn á Ísafirði sem er leiðandi í útinámi, en verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur og þróun í menntamálum eða í kennsluháttum á leikskólastiginu. 

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, veitti Jónu Lind Kristjánsdóttur, skólastjóra Tanga, viðurkenninguna fyrir hönd aðstandenda Orðsporsins, sem komust ekki vestur vegna veðurofsa. Upphaflega stóð til að athöfnin færi fram á torgi bæjarins þar sem leikskólinn býður bæjarbúum reglulega í kakó og kynnir útistarf sitt. Vegna veðurs var þó ákveðið að færa herlegheitin yfir á útisvæði leikskólans þar sem hægt var að kveikja varðeld og njóta.

DEILA