Í febrúar sögðum við frá verkefninu „Seyoum is my brother“ en það eru samtökin „One Day Seyoum“ sem standa fyrir þessu verkefni. Seyoum er blaðamaður frá Eritreu sem, ásamt 10 öðrum blaðamönnum, var hnepptur í varðhald árið 2001 og ekki hefur heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað. Rut Einarsdóttir vakti athygli nemandi á ástandi mannréttindamála í Eritreu og frá Seyoum og í kjölfarið tóku krakkarnir sig til að gerðu bæði myndbönd og teikningar með skilaboðum til Seyoums.
Stofnandi samtakanna, Vanessa Berhe, var svo snortin af samtakamætti krakkanna að hún fann sig knúna til þess að koma alla leið á Patreksfjörð að hitta þau.
„Vanessa kom á Patreksfjörð til þess að segja nemendum Patreksskóla frá því hvernig það sem þau gerðu snerti fólk um allan heim. Hún segir að margir fjölskyldumeðlimir hennar, hún sjálf meðtalin, hafi tárast þegar þau sáu myndirnar og myndböndin frá nemendunum. Hún minntist á að það að ungir nemendur í þorpi í landi langt frá Eritreu skyldu láta sig þetta varða og standa með þeim væri ekki bara ómetanlegt fyrir fjölskylduna, heldur sýndi það líka yfirvöldum þar í landi að þau geta ekki komist upp með það hvernig þau hafi hagað sér mikið lengur, þar sem heimurinn væri loksins farinn að taka eftir þeim, og mótmæla gjörðum þeirra.“ Segir Rut sem tók á móti Vanessu ásamt nemendum sem voru áhugasamir um samtökin og Vanessu.
Vanessa kom á vegum samtakanna Ung Vest sem stofnuð voru núna í sumar, með aðstoð frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Samtökin voru stofnuð með það að leiðarljósi að veita stuðning við ungt fólk á Sunnanverðum Vestfjörðum, og stuðla að valdeflingu ungs fólks í gegnum námskeið, vinnusmiðjur og í gegnum ýmis verkefni. Hægt er að sjá Facebook síðu samtakanna hér.
Hér má svo horfa á myndaband með kveðjum frá krökkunum.
bryndis@bb.is