Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands vekur athygli á að Lífshlaupið heilsu- og hvatningarverkefnið verður ræst í átjánda sinn, miðvikudaginn, 5. febrúar kl. 12:30 í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut.
Þessir aðilar munu ávarpa á setningunni:
- Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ
- Alma Möller, heilbrigðisráðherra
- Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra
- Guðrún Aspelund, settur landlæknir
- Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í lyftingum og læknanemi
Kynning á heilsueflandi efni heilsuteymis LSH
- Guðrún Día Hjaltested, starfsmannasjúkraþjálfari
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í sínu lífi, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta. Lífshlaupið er góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig, skrá hreyfinguna, hafa yfirlit og setja sér markmið. Að auki þá getur verkefnið skapað skemmtilega stemningu á vinnustöðum og í skólum sem keppa sín á milli og innan vinnustaða. Aðalmarkmiðið er að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast á meðan á keppninni stendur. Stuðst er við ráðleggingar um hreyfingu frá embætti landlæknis.
Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka í keppninni:
- Vinnustaðakeppni frá 5. – 25. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
- Framhaldsskólakeppni frá 5. – 18. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
- Grunnskólakeppni frá 5. – 18. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
- Hreystihópar 67+ (nýr keppnisflokkur) frá 5. – 25. febrúar (þrjár vikur)
Til þess að taka þátt í keppninni þarf að skrá sig til leiks á heimasíðu Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is og skrá hreyfinguna.
Samstarfsaðilar Lífshlaupsins eru embætti landlæknis, mennta- og barnamálaráðuneytið og RÁS2.
Þau fyrirtæki sem gefa vinninga eru: Móðir Náttúra, Mjólkursamsalan, Primal Iceland, Skautahöllin í Laugardal, World Class, Klifurhúsið, Lemon og Unbroken.