Minningarorð
starfsaldursforseta Alþingis, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur,
á þingsetningarfundi 4. febrúar 2025 um
Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismann
Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, lést aðfaranótt 24. janúar, 85 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 10. október 1939, sonur hjónanna Björgvins Schram, stórkaupmanns, og Aldísar Brynjólfsdóttur, húsmóður.
Að loknu stúdentsprófi var Ellert við nám í Lundúnum um eins árs skeið en sneri sér síðan að laganámi við Háskóla Íslands og lauk því árið 1966.
Ellert var fyrst kjörinn á Alþingi 31 árs gamall við þingkosningar 1971, sem mörkuðu viss þáttaskil í stjórnmálum, og var þá yngstur þingmanna. Hann hvarf síðast úr sölum Alþingis í janúar 2019 sem varaþingmaður, á áttugasta aldursári, elstur þeirra sem setið hafa á þingi. Á því tímabili sat hann sem aðalmaður á 16 þingum; 1971–1979, 1984–1987 og 2007–2009, og á þrem þingum sem varamaður.
Ellert gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, var forustumaður í ungliðahreyfingu flokksins og naut stuðnings hennar til setu á framboðslistanum í Reykjavík. Ellert lét talsvert að sér kveða í þingsölum en eftir þingkosningar 1983 taldi hann sig ekki fá það traust til forystustarfa sem sanngjarnt væri og varð þá smám saman viðskila við flokk sinn, hætti þingmennsku og gekk síðar í raðir Samfylkingarinnar. Á hennar vegum var hann kosinn þingmaður á ný 2007.
Ellert B. Schram varð landskunnur á yngri árum sem knattspyrnumaður í KR og landsliði Íslands. Hann var vinsæll samherji jafnt sem mótherji, snjall íþróttamaður og prúðmenni á velli. Síðar á ævinni var hann forseti Knattspyrnusambands Íslands í 16 ár og Íþróttasambands Íslands í önnur 16 ár. Eru þá ótalin margvísleg félagsmálastörf hans, í námi, í starfi og á öðrum vettvangi.
Á skólaárum vann Ellert við blaðamennsku og ýmis störf en varð eftir lagapróf skrifstofustjóri borgarverkfræðings fram að því að hann settist á þing. Árið 1980 varð hann ritstjóri Vísis og síðar DV fram til 1996. Ellert ritaði margt og eftir hann liggja bækur, bókarkaflar og fjöldi greina um ólík málefni. Hann gat sér gott orð hvar sem hann kom að verki, enda var Ellert kappsamur og ráðagóður, sanngjarn og velviljaður.