Innan Vegagerðarinnar er til skoðunar að færa veginn um Eyrarhlíð í Skutulsfirði. Er það í framhaldi af skriðuföllunum í nóvember og þá með umferðaröryggi í huga.
Samkvæmt mynd frá Vegagerðinni er færslan á um 500 metra löngum kafla og yrði þá vegurinn færður út í sjó á þeim kafla. Á þessum kafla féllu aurskriður fyrr í vetur og lokuðu veginum.
Ekki er til skoðunar að færa veginn út í Prestabugtina og láta hann koma að Sólgötunni og taka þannig af beygjuna við Íshúsfélagshúsið.
Í svörum Vegagerðarinnar er tekið fram að ekki sé búið að taka neinar ákvarðanir né er komið fjármagn til framkvæmda.