Ísafjarðarbær og Knattspyrnudeild Vestra yngri, hafa gert með sér samning um byggingu viðbyggingar við áhorfendastúku á Torfnesvelli, og afnot hennar í kjölfar byggingar.
Ætlunin er auka þjónustu við áhorfendur á Torfnesvelli og bæta rekstrargrundvöll Knattspyrnudeildar Vestra yngri, með því að útbúa aðstöðu til sölu á veitingum og/eða varningi til fjáröflunar fyrir knattspyrnudeildina þegar fótboltaleikir eru á vellinum, eða aðrir viðburðir á svæðinu.
Um er að ræða 68,9 m2 viðbyggingu sem stendur ofan á þeim hluta stúkunnar er Skotíþróttafélag Ísafjarðar nýtir, þ.e. suðurenda stúkunnar.
Knattspyrnudeild Vestra yngri fjármagnar alla framkvæmd vegna byggingar mannvirkisins og greiðir byggingarkostnað og annan kostnað vegna framkvæmdanna, sem ekki er sérstaklega nefndur til greiðslu af Ísafjarðarbæ.
Ísafjarðarbær skal greiða gatnagerðargjöld af mannvirkinu og byggingarleyfisgjöld, og byggingarstjórn, en ber að öðru leyti hvorki fjárhagslega né tæknilega ábyrgð á byggingu þess.
Ísafjarðarbær er skráður eigandi mannvirkisins.
Ísafjarðarbær greiðir kostnað vegna hita og rafmagns í mannvirkinu, auk húseiganda- og brunatrygginga. Knattspyrnudeild Vestra yngri skal greiða allan annan rekstrarkostnað sem hlýst af notkun mannvirkisins, svo sem kostnað vegna netþjónustu, símasambands, rekstrartrygginga og starfsleyfa eftir atvikum.
Ísafjarðarbær, sem eigandi mannvirkisins, skal sjá um allt meiriháttar viðhald á mannvirkinu, þ.m.t. viðgerðir á burðarvirki, þaki, gluggum, lagnakerfi, hita- og vatnsveitu og öðrum fastabúnaði, sem nauðsynlegur er til að tryggja nothæfi og öryggi mannvirkisins.
Samningurinn var lagður fram í bæjaráði í gær og var vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.