Nýr vefur fyrir veðurspár í loftið í dag

óhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag.

Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni gottveður.is

Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is

Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað.

Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.

„Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár og því eru þetta mikil tímamót í dag“, segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum“.

„Það sem birtist í dag má segja að sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu“.

„Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er að það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma“, segir Hildigunnur.

DEILA