Byggðastofnun: fasteignamat viðmiðunareignar lægst á Vestfjörðum – en hækkar mest milli ára

Byggðastofnun hefur birt skýrslu um fasteignamat viðmiðunareignar. Stofnunin hefur fengið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni í þéttbýli um allt land. Til eru sambærileg gögn frá árinu 2010 fyrir 31 matssvæði. Árin 2021 til 2023 var 72 svæðum bætt við greininguna. Matssvæðin eru því 103 í 49 sveitarfélögum, þar af 27 á höfuðborgarsvæðinu og 76 utan þess.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.

Fasteignamatið 37 m.kr. á Vestfjörðum

Fasteignamatið á viðmiðunarhúsinu er lægst á Vestfjöðum og er það 37 m.kr. Þó er hækkunin frá síðasta ári mest á Vestfjörðum og er hún 21%. Munurinn á Vestfjörðum og næstu verðsvæðum er lítill. Á Austurlandi er matið 38,1 m.kr. og 40,3 m.kr. á Norðurlandi vestra.

Verðmatið á viðmiðunarhúsinu er þrefalt hærra á höfuðborgarsvæðinu en á Vestfjörðum. Á Suðurnesjum og Suðurlandi er matið næsthæst á landinu um helmingur þess sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Ísafjörður svipað og Suðurnes og Suðurland

Viðmiðunarhúsið fær hæsta fasteignamat á Ísafirði af byggðarlögum á Vestfjörðum. Í eldri byggð á Ísafirði er matið 63 m.kr. og 57 m.kr. í nýrri byggðinni. Það þýðir að fasteignamatið er sambæilegt og á Suðurnesjum og Suðurlandi , sem eru þau svæði utan höfuðborgarsvæðisins sem fá hæsta matið.

Síðustu 10 árin hefur mesta hækkunin á landinu orðið á Patreksfirði, en þar hefur viðmiðunarhúsið hækkað um 173% í fasteignamati. Í Bolungavík hefur orðið þriðja mesta hækkunin á landinu á þessum 10 árum eða 126%. Á Hólmavík hefur aftur á móti orðið næstminnsta hækkunin síðustu 10 árin eða aðeins 25%.

DEILA