Í apríl á síðasta ári voru opnuð tilboð hjá Bolungavíkurkaupstað í gatnagerð og lagnir í nýju hverfi Lundahverfi. Tvö tilboð bárust, frá Búaðstoð ehf að fjárhæð 256.878.200 krónur og hins vegar frá Þotunni ehf. að fjárhæð 289.488.100 krónur. Kostnaðaráætlun varnaraðila nam 287.607.500 krónum og var tilboð kæranda því 89% af kostnaðaráætlun, en tilboð Þotunnar ehf. 101% af kostnaðaráætlun.
Í maí hafnaði bæjarráð báðum tilboðum í verkið og fól bæjarstjóra að vinna, í samvinnu við tæknideild, að nýrri útfærslu á framkvæmdum við Lundahverfi ásamt kostnaðaráætlun. Í fundargerð bæjarráðs 25. júní 2024 er svo fært til bókar, að „[f]ramkvæmdir við Lundahverfi hefjast á árinu, en framkvæmdum verður áfangaskipt. Fyrsti áfangi sem unnin verður á árinu 2024 gerir ráð fyrri gatnagerð á Brekkulundi frá Þjóðólfsvegi að Völusteinsstræti. Bæjarráð leggur til að semja við tilboðsgjafa í útboði um verkið í samræmi við útboðsskilmála þess.“
Búaðstoð kærði til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felldi úr gildi ákvörðun varnaraðila um að efna til samningskaupa án undanfarandi útboðsauglýsingar í kjölfar hins kærða útboðs og leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik.
Ef kominn væri á samningur milli varnaraðila og Þotunnar ehf. þá krafðist kærandi þess að kærunefnd útboðsmála lýsti þann samning óvirkan.
Bolungavíkurkaupstaður byggði vörn sína á því að bókun bæjarráðs lúti að því að fram skuli fara nýtt útboð með þeirri breytingu að verkið verið áfangaskipt, og að samið verði svo við tilboðsgjafa í útboði um verkið í samræmi við útboðsskilmála þess. Það væri alveg ljóst að innkaupaferlinu hafi lokið með því að báðum tilboðum hafi verið hafnað. Þá ítrekaði Bolungavíkurkaupstaðurinn að ekki hafi verið gengið til samninga við Þotuna ehf. á grundvelli hins kærða útboðs eða beinna samningskaupa. Búaðstoð hafi fengi tilkynningu um að yfirferð á tilboði Þotunnar ehf. væri ekki lokið, sem hafi byggst á misskilningi innanhúss hjá kaupstaðnum.
Í lokaathugasemdum kæranda, Búaðstoðar ehf er bent á að í greinargerð varnaraðila hafi verið staðfest að verkið yrði boðið út að nýju og því hafi varnaraðili þannig orðið í reynd við aðalkröfu kæranda í málinu.
Niðustaða kærunefndarinnar í desember sl. var að vísa frá kröfu kæranda þar sem fyrir lá að útboð færi fram að nýju.