Ísafjarðarbær: fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkaði um 43% á þremur árum en neysluvísitala um 23%

Frá Ísafirði.

Tekjur Ísfjarðarbæjar af fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði voru árið 2022 tæplega 244 mkr. en eru áætlaðar verða á þessu ári 350 m.kr. Álagningarprósenta fasteignaskatts lækkaði þó úr 0,56% af fasteignamati árið 2022 í 0,50% á þessu ári.

Hækkunin er um 43% á þessu tímabili. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverða um 23,6%. Hefur sveitarfélagið þannig aukið tekjur sínar af fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði verulega umfram verðlagsþróun. Lætur nærri að hækkunin af íbúðarhúsnæði sé um 50 m.kr. umfram verðlagsþróun.

Hækkun fasteignamatsins frá síðasta ári er 12,7% samkvæmt því sem fram kemur í yfirliti á vefsíðu Ísafjarðarbæjar. Ef fasteignamat íbúðarhúsnæðis er skoðað eftir byggðakjörnum þá hækkaði fasteignamatið milli ára mest í sérbýli í Hnífsdal, eða um 29,2%. Næsthæst var hækkunin á fjölbýli á Flateyri eða um 27%. Sérbýli á Suðureyri hækkaði um 19,4% og fjölbýli á Þingeyri um 18,7%.

Hækkun fasteignamats á árunum 2021-2025 í Ísafjarðarbæ hækkaði um samtals 83,42%.

DEILA