Reykjavíkurflugvöllur: skerðing á flugbrautum ekki góðar fréttir

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

„Fyrirhuguð skerðing á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar eru ekki góðar fregnir fyrir Ísafjarðarbæ og landsbyggðina í heild, sem treystir á flugsamgöngur til og frá höfuðborginni. Innanlandsflugið, staðsetning innanlandsflugvallar í Vatnsmýri og að hægt sé að nota þær flugbrautir sem þar eru er gríðarlega mikilvægt fyrir öryggismál fyrir landsbyggðina, einkum þar sem þessar skerðingar koma niður á flugumferð í myrkri og þá sjúkraflugi.“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ aðspurð um afstöðu Ísafjarðarbæjar til fyrirhugaðrar skerðingar á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar.

„Þetta er því hagsmuna- og öryggismál sem við látum okkur varða og mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar, t.a.m. Samgöngustofa og Reykjavíkurborg leysi málin fljótt og vel með því að tryggja öryggi og rekstur flugvallarins.“

Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð tók í svipaðan streng. „Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óásættanlegt og tökum við þessu mjög alvarlega enda stórt landsbyggðarmál.“ Hún bætti því við að málefni Reykjavíkurflugvallar væri á dagskrá bæjarstjórnafundar í Vesturbyggð sem haldinn var seinni partinn í gær og boðaði hún bókun bæjarstjóna um málið.

Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.

DEILA