Verða strandveiðarnar næstar?

Hversu langt ætli sé í það að Inga Sæland dragi í land varðandi áherzlu Flokks flokksins á strandveiðar og lýsi því yfir að hún treysti Daða Má Kristóferssyni, fjármálaráðherra og varaformanni Viðreisnar, fullkomlega í þeim efnum? Eins og varðandi fyrirhugaða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem flokkurinn lagðist alfarið gegn áður en hann varð aðili að ríkisstjórn. Varla mjög langt miðað við framgöngu hennar til þessa þar sem hverju ófrávíkjanlega málinu á fætur öðru hefur verið fórnað.

Vægast sagt afar skiptar skoðanir eru um strandveiðarnar og sýnist eðlilega sitt hverjum í þeim efnum. Hvað sem því líður hefur Flokkur fólksins lagt ríka áherzlu á málið á liðnum árum og hefur til dæmis Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra ítrekað tínt þær til sem réttlætingu á þeim algera viðsnúningi sem orðið hefur hjá flokknum í ófáum málum frá kosningunum sem áður kom ekki í orði kveðnu til greina að hverfa frá. Það breyttist hratt þegar flokkurinn var kominn í ríkisstjórn.

Flokkur fólksins hefur til að mynda þegar gefið upp á bátinn stærsta stefnumál sitt um lágmarksframfærslu upp á 450 þúsund krónur á mánuði skattlaust sem Inga sagði fyrir kosningar skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn enda hefði hann beinlínis verið stofnaður um það. Hið sama á við um andstöðu flokksins við inngöngu í Evrópusambandið sem og andstöðu hans við samþykkt bókunar 35 við EES-samninginn sem Inga og fleiri í forystusveit flokksins bentu réttilega á að færi gegn stjórnarskránni.

Daði ritaði ásamt fjór­um öðrum hag­fræðing­um grein árið 2021 í rit­ið Reg­i­onal Studies in Mar­ine Science þar sem fram kemur sú niðurstaða þeirra að strand­veiðarn­ar væru „ekki efna­hags­lega skyn­sam­leg­ar“ þar sem mun hagkvæmara væri að veiða aflann með skip­um inn­an afla­marks­kerf­is­ins. Megnið af afl­an­um í strand­veiðunum væri auk þess þorsk­ur sem væri enn hag­kvæm­ara að veiða í afla­marks­kerf­inu en flest­ar aðrar teg­und­ir. Strand­veiðar væru þess vegna „efna­hags­leg sóun.“

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

DEILA