Í Ársskýrslu slökkviliðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að þar starfi fjórir starfsmenn í fullu stafi.
Þeir sinna öllum störfum sem koma inn á borð slökkviliðs, svo sem sjúkraflutningum, eldvarnareftirliti og slökkvitækjaþjónustu. Einnig að skipuleggja æfingar og endurmenntun fyrir aðra slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.
Í slökkviliði eru starfandi 55 slökkviliðsmenn; 25 á Ísafirði, og tíu á hverri útstöð slökkviliðsins á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.
Einnig eru sex slökkviliðsmenn í Súðavík og 25 í Bolungarvík, sem eru í umsjá Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar samkvæmt þjónustusamningi.
Útköll slökkviliðs á árinu voru 11, með mismiklum forgangi. Eldur sem kom upp í rútu rétt við Vestfjarðagöngin, Skutulsfjarðarmegin, í september síðastliðnum var með stærri verkefnum slökkviliðsins árið 2024. Önnur útköll voru vegna umferðarslysa, leka hættulegra efna, aðstoðar við sjúkrabíl og fleiri minni atvika. Rútubruninn vakti upp mikla og þarfa umræðu um öryggi í jarðgöngum og var fundað með Vegagerðinni í kjölfarið.
Starfsstöðvar sjúkraflutninga eru tvær; á Ísafirði og Þingeyri. Þrír sjúkrabílar eru á Ísafirði og einn á Þingeyri.
506 sjúkraflutningar voru á árinu 2024 sem er dálítil aukning miðað við 467 flutninga árið 2023.
Á haustdögum var haldinn starfsdagur slökkviliðs og þar eru línur lagðar fyrir næsta starfsár, auk þess að leggja fram innkaupalista og æfingaáætlun slökkviliðs. Æfingar slökkviliðs fara fram einu sinni í mánuði og íþróttaæfingar fara fram tvisvar í viku undir stjórn þjálfara.
Á útstöðvum eru æfingar undir stjórn þjálfunarstjóra einu sinni í mánuði yfir veturinn