Hin japanska Yuki Kasahara,sem keppir undir merkjum borðtennisdeildar Ungmennafélags Bolungarvíkur, var sigursæl á BH Open mótinu í Hafnarfirði um liðna helgi.
Mótið, sem haldið er af Borðtennisfélagi Hafnarfjarðar, er eitt það stærsta sinnar tegundar hér á landi, en alls 116 keppendur tóku þátt í íþróttahúsinu við Strandgötu, þar á meðal keppendur frá bæði Danmörku og Færeyjum. Er þetta þriðja skiptið sem mótið er haldið.
Yuki sigraði alla þrjá leiki sína í meistaraflokki kvenna og stóð þar uppi sem sigurvegari. Einnig keppti hún í opnum flokki, hvar andstæðingar hennar voru flestir af karlkyni, auk þess sem hún keppti í tvíliðaleik. Alls vann hún 7 leiki í öllum flokkum sem er frábær árangur og hlaut hún 30.000 krónur í verðlaun.
Eru því fyrstu sigurverðlaun UMFB á opnu borðtennismóti staðreynd og ekki er loku fyrir því skotið að UMFB sé fyrsta félagið á Vestfjörðum sem hlotið hefur fyrstu verðlaun í opnu borðtennismóti hér á landi, að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós!