Á laugardaginn voru rétt 30 ár frá snjóflóði sem féll á bæinn Grund á Reykhólum. Flóðið jafnaði við jörðu nánast öll útihús á bænum. Þegar snjóflóðið féll voru feðgarnir Ólafur Sveinsson og Unnsteinn Hjálmar Ólafsson, bændur á Grund, að ljúka gegningum að kvöldi og voru í þann mund að yfirgefa húsin. Þeir lentu í flóðinu með þeim afleiðingum að Ólafur fórst, en Unnsteinn komst lífs af.
Á vef sveitarfélagsins er minnst þessa atburðar. Ólafur hafði búið á Grund ásamt konu sinni Lilju Þórarinsdóttur frá 1958. Þegar þarna er komið sögu bjuggu þau með Unnsteini syni sínum og einnig bjó eldri sonur þeirra, Guðmundur, þar. Lilja lést árið 2013 á 91. aldursári, en þeir bræður, Unnsteinn og Guðmundur búa enn á Grund. Guðmundur býr á Litlu-Grund sem hann byggði ásamt konu sinni Ástu Sjöfn Kristjánsdóttur og Unnsteinn býr í gamla húsinu.
Mæðginin á Grund ákváðu að halda áfram búskapnum, þrátt fyrir þessi þungu áföll. Strax um sumarið var hafist handa við að byggja ný fjárhús. Byrjað var að grafa grunn 17. júní og húsin voru fullbyggð 27. október, 1995.