Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að styrkja nemendur við Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði til að koma til móts við aukin kostnað þeirra við ferðir til Grundafjarðar, sem farnar eru reglulega yfir skólaárið. Styrkurinn er í samræmi við húsnæðisstyrk 15 – 17 ára sem sækja framhaldsskóla utan heimabyggðar.
Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri segir að styrkurinn nái til alls ferðakostnaðar samkvæmt samningi Vesturbyggðar við Fjölbrautarskólann, og miðast hann við gjaldskrá Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Þá greiði sveitarfélagið 60% af gistikostnaði á Grundarfirði. Nemendur fari 4 – 6 ferðir á vetri og er gistingin að jafnaði fjórar nætur hvert sinn. Kostnaður er um 30 þúsund krónur í ferð. Ferðakostnaður í Baldur er 5.570 kr. fyrir ferð aðra leiðina.
Ferðaostnaður er skv. þessu 40 – 60 þús kr á hvern nemanda yfir veturinn og gistikostnaður 120-180 þúsund kr. Hlutur sveitarfélagsins í samanlögðum ferða- og gistikostnaði er um 110-170 þús kr. fyrir hvern nemanda.