Útköll slökkviliðsina á síðasta ári voru 11 með mismiklum forgangi. Enginn stóreldur eða stórtjón var á svæði slökkviliðsins árið 2024. Þetta kemur fram í í ársskýrslu slökkviliðsins fyrir 2024.
Í september mánuði brann rúta rétt við Vestfjarðargöngin, Tungudalsmegin. „Mikið lán var að rútan var komin út úr göngunum. Allir farþegar komust heilir út en rútan brann til kaldra kola. Mikil og þörf umræða um öryggi í jarðgöngunum átti sér stað eftir þetta. Fundað var með Vegagerð sem á og rekur göngin. Farið var í skoðunarferð til Noregs vegna þessa máls og skoðuð voru jarðgöng þar. Þetta mál er enn til skoðunar og hugsanlegar úrbætur hjá Vegagerð.“
Fjórir starfsmenn eru í fullu stafi hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Þeir sinna öllum störfum sem koma inn á borð slökkviliðs, s.s. sjúkraflutningum, eldvarnareftirliti og slökkvitækjaþjónustu. Auk þess að skipuleggja æfingar og endurmenntun fyrir aðra slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.
Í slökkviliði eru starfandi 55 slökkviliðsmenn, 25 á Ísafirði, og tíu á hverri útstöð á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.
Einnig eru sex slökkviliðsmenn í Súðavík og 25 í Bolungarvík sem eru í umsjá Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar samkvæmt þjónustusamningi.
Starfsstöðvar sjúkraflutninga eru tvær; á Ísafirði og Þingeyri. Þrír sjúkrabílar eru á Ísafirði og einn á Þingeyri.
Farþegar á skemmtiferðaskipum koma í heimsókn
Heimsóknir eru alltaf þó nokkrar til slökkviliðsins, sérstaklega yfir sumarið. Þá koma gestir af skemmtiferðaskipum, flestir af þeim eru slökkviliðsmenn eða fyrrverandi slökkviliðsmenn.
Þarf nýja slökkvistöð
Á sumarmánuðum 2023 kom í ljós mygla á nokkrum stöðum í húsnæðinu. Margra ára leki og raki er að skila sér í myglu í veggjum og þaki og er víða um stöðina.
Bæjarráðsmenn eru að meta hvað skal gera í þessari stöðu. Staðsetning á nýrri slökkvistöð er á Suðurtanga. Búið er að setja inn í framkvæmdaráætlun bæjarins fjármagn til að ráðast í hönnun og teikningar.
Mjög mikil þörf er á nýrri slökkvistöð þar sem núverandi stöð uppfyllir á engan hátt nútíma kröfur og nú einnig vegna myglu.
Skrifstofur slökkviliðs fluttu í leiguhúsnæði hjá Regus, í gamla Landsbankanum.
öflugri körfubíll – æfingahúsnæði á Hauganesi
Seldur var Volvo körfubíll árg 1981 til slökkvilið Blönduós. Fengum að láni Scania körfubíl frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sá bíll er mun öflugri og nýrri en sá sem seldur var. Einnig var Toyota þjónustubíll seldur og í staðinn var keypt Tesla Y rafmagnsbíll.
Slökkvilið fékk á árinu afnot af æfingahúsnæði, gamla hesthúsið á Hauganesi. Þar hafa þjálfarar útbúið þrautabraut innandyra. Það er til mikilla bóta að æfa innandyra yfir veturinn. Allar útstöðvar koma til æfinga i þetta húsnæði. Miklir möguleikar eru fyrir hendi æfingalega séð, bæði inn í húsinu og uppá þaki t.d.