Vegagerðin: verkefnum seinkar vegna vanfjármögnunar

Mynd af Bíldudalsvegi í samgönguáætluninni frá 2020.

Vegagerðin segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hún hafi  verið að framfylgja þeirri forgangsröðun sem samþykkt var á Alþingi árið 2020 en verkefnum seinkað þar sem munur er á framlögum til framkvæmda á vegakerfinu í fjárlögum frá Alþingi og því sem kemur fram í samþykktri samgönguáætlun.

Samkvæmt samþykktri og gildandi samgönguáætlun á að hefja framkvæmdir við Bíldudalsveg á þessu ári og ljúka verkinu a árinu 2028. Staða verksins er hins vegar þannig skv. svörum Vegagerðarinnar í síðustu viku að vegurinn er ekki kominn á verkhönnunastig en búið að ljúka frumdrögum.

Lögð var fram á Alþingi tillaga að nýrri samgönguáætlun í október 2023 og þar var lagt til að seinka framkvæmdum við Bíldudalsveg um fjögur ár. Sú tillaga náði ekki fram að ganga og er því fyrri áætlun enn í gildi óbreytt.

Um fimm milljarða króna vanfjármögnun

Bæjarins besta innti Vegagerðina eftir því hvers vegna ekki væri unnið samkvæmt gildandi samgönguáætlun varðandi Bíldudalsveg.

Í svari Vegagerðarinnar segi að samgönguáætlun fyrir þetta tímabil hafi ekki verið fullfjármögnuð af Alþingi.

Munurinn árið 2022 var 1.500 m.kr.

Munurinn árið 2023 var 3.126 m.kr.

Til viðbótar þá séu kostnaðaráætlanir verkefna í samgönguáætlun 2020 settar fram á verðlagi þess tíma og þurfi að taka tillit til verðlagsbreytinga frá þeim tíma að auki.

Þá hafi fjárveitingar til einstakra verkefna verið í samræmi við fjárhagsramma í samþykktri fjármálaáætlun 2024-2028 frá Alþingi sumarið 2023 og í fjárlögum fyrir árið 2024 sem samþykkt voru í lok árs 2023 og þar hafi verið miðað við framkvæmdatíma verkefna samkvæmt tillögunni sem ekki var svo samþykkt.

Því sé ekki samræmi milli fjárveitinga einstakra verkefna og framkvæmdatíma þeirra eins og hún er ákveðin í samgönguáætluninni sem samþykkt var 2020.

Samgönguráðherra Eyjólfi Ármannssyni hefur verið send fyrirspurn um málið og spurt hvort hann hyggist framfylgja samgönguáætlun og knýja á um að staðið verði við hana hvað Bíldudalsveg varðar.

DEILA