Stutt er síðan ég stakk upp á nokkrum sparnaðartillögum nýrri ríkisstjórninni til handa í aðsendri grein í Bæjarins besta þar sem ég lagði til að reikningar fyrir keypta þjónustu yrðu skoðaðir ofan í kjölinn og þá var ég aðalega að hugsa um verktakaþjónustu – en kaup á slíkri þjónustu hefur vaxið mikið hjá ríkinu á liðnum árum án þess að gaumgæft hafi verið nægilega fyrir hvað var í raun verið að greiða – eins og eðlilegt væri að gera þegar sýslað er með almannafé.
Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að svo sé gert ekki síst þegar litið er til þess að tekjur ríkisins hafa ekki lengi vel verið að duga fyrir nauðsynlegum aðkallandi framkvæmdum né heldur viðhaldi á innviðum samfélagsins – í ljósi þess má ætla að frjálsleg verktakakaup hafi ekki verið að skila sér í sparnaði.
Í greininni kom ég ekki inn á neinar tekjuöflunarleiðir enda leist mér vel á þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafði tíundað í þeim efnum – það er að segja að sækja fjármagn til þeirra ofurríku í gegnum skattkerfið – ekki síst til þeirra sem hingað til hafa verið að nýta auðlindir í þjóðareigu gegn vægu afnotagjaldi.
Loksins hugsaði ég við þær góðu fréttir og réttlætisvitund nýju ríkisstjórnarinnar yljaði mér um hjartarætur um stund eða þar til ég fékk í pósti sendan reikning frá sýslumanninum á Vestfjörðum fyrir hönd skattsins.
Þar var um að ræða rukkun bifreiðargjalds fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní 2025 sem hljóðaði upp á 21.948 kr – sem verður þá fyrir allt árið 43.896 kr – sem er hækkun upp á mörg hundruð prósent. En þetta gjald hefur hingað til verið hóflegt og aðeins greitt einu sinni á ári.
Nú spyr ég – hvernig er hægt að dengja svona hækkun á almenning án þess að upplýst umræða hafi farið fram opinberlega ?
Þessi aðför að heimilum landsins bakdyramegin rýrir sannarlega traustið á nýju ríkisstjórnina og gerir hennar áður gefnu loforð ótrúverðug.
Ég gat hreinlega ekki á „pennahöndinni“ setið – mér ofbýður þegar ríkisstjórn landsins er farin að skipa sér í sess með helstu „ræningjaflokkum“ þjóðarinnar á sama tíma og stór hluti landsmanna berst í bökkum til að ná endum saman og enn aðrir komnir með sultarólarnar í síðasta gati.
Það er sagt að launakröfu á almennum vinnumarkaði valdi höfrungahlaup og kyndi undir verðbólgu – það er ekki rétt – verðbólgan hér er hagnaðardrifin en ekki neysludrifin – það eru því stjórnlausar hækkanir á öllum nauðþurftum allt frá næringu upp í skjól sem það gera – svo virðist sem viðskiptum hér sé enginn stakkur sniðinn.
Það er orðið svo sjálfsagt að græða á eymd og volæði annarra – að orða einhverjar breytingar þar á telst á „æðstu“ stöðum ganga guðlasti næst – þess vegna er almenningur ofurseldur skyndigróðrarhyggju auðvaldsins – honum er talið trú um að allt sé í hershöndum ef þeir sem hafa lifibrauð sitt af því að blóðmjólka fjöldann græði ekki meira í dag en í gær.
Slík og önnur eins hagfræði getur aldrei gengið upp því hún grefur undan undirstöðunum – en þær traustar eru forsenda þess að hlutirnir blessist.
Mannauðurinn er undirstaða hvers samfélags – sé vegið að honum er hætta búin á öllum sviðum og ekkert annað en hnignun blasir við.
Já, skefjalaus græðgin er sannarlega ávísun á hnignun og kannski hefur hún lengi blasað við okkur hér á fróni án þess að við höfum náð að átta okkur sveimandi um í heilaþvottarþoku frjálshyggjunnar.
Á Íslandi er til dæmis ekkert nothæft íþróttamannvirki á alþjóðavísu – frændur okkar og grannar í Færeyjum sem bora göng eins og enginn sé morgundagurinn hafa boðið íslendingum afnot af sínu þegar mikið liggur við.
Það er ekki í forgangi nýrrar ríkisstjórnar að byggja íþróttarhöll en það er hins vegar í forgangi hjá henni að byggja hjúkrunarheimili af því að þjóðin er að eldast – en hamrað hefur verið svo rækilega á því um langa hríð að halda mætti að við værum í sérflokki meðal þjóða hvað öldrum varðar.
Almenningur hefur ekki góð tök á því að leyfa börnunum sínum að stunda íþróttir og sumir bara alls ekki vegna kostnaðar – það eru bara lúxuxbörnin sem hafa ótakmarkað val í þessum efnum – hinum minna megandi sem upplifa sig hornreka í íslensku samfélagi er vísað á pillujötuna sem varðar leið þeirra á láglaunamarkað og eða á Tryggingastofnun ríkisins þaðan svo á hjúkrunarheimili þar sem þau að leiðarlokum geta í tóminu borið saman brostnar framtíðarvonir æskuáranna.
Það er sko mesti misskilningur að Ísland sé draumaland – það er vissulega góssenland fyrir suma en botnlaus þrældómur fyrir aðra sem fastir eru í hanstrahjóli okurs án marka – kannski er hækkun bifreiðagjalds merki um að nýja ríkisstjórnin ætli að láta þrælana halda sig við hamstrahjólið – enda búin að hækka tolla á reiðhjólum – mögulega til að fjármagna uppbyggingu á hjúkrunarheimilum eða niðurgreiðslur á gleðipillum.
Það er hljómurinn í bjöllunni í Kauphöllinni sem allt snýst um hér á landi – þar sem sama fólkið hefur verið að selja hvert öðru sömu fyrirtækin árum saman og auðvitað með hagnaði hverju sinni þó engin raunveruleg verðmætasköpun hafi átt sér stað því til réttlætingar – réttlætið eru arðgreiðslunar sem síðan eru notaðar til að færa enn frekar út kvíarnar – aukin umsvif þýða aukin völd – sjálftekin völd sem deila og drottna – ávallt með sjálfið í fyrirúmi.
Á meðan sumir fá óáreyttir að haga sér að geðþótta á kostnað hinna mun ekkert breytast og ef ný ríkisstjórn ætlar að halda áfram á sömu braut veruleikafirringar og sú fyrri þá mun fljótt fjara undan trausti hennar.
Vei þeim dómara, er veit og sér
víst hvað um málið réttast er,
vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.
Hallgrímur Pétursson
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífreyndur eldri borgari.