Strandagangan er árlegur stórviðburður í íþróttalífinu á Ströndum. Hún er einnig ómissandi hluti af Íslandsgöngunni sem er röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Henni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.
Fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995 og hefur hún aldrei fallið niður, enda er yfirleitt hægt að finna snjóþung svæði á starfssvæði Skíðafélags Strandamanna. Gangan er fyrir alla aldurshópa, vana sem óvana. Vegalengdir sem eru í boði eru 4 km og 10 km sem eru opnar öllum aldurshópum ásamt 20 km sem er fyrir 17 ára og eldri.
Strandagangan er þó ekki síst þekkt fyrir það sem kemur í kjölfarið, en þá er keppendum boðið í veglegt kaffisamsæti og verðlaunaafhendingu. Borðin svigna jafnan undan kræsingum fyrir svanga göngugarpa og alla aðra sem vilja styðja við starfsemi Skíðafélags Strandamanna. Fyrir marga er þetta hápunktur Strandagöngunnar.
Sunnudaginn 9 mars er þriðja skíðaskotfimimót Skíðafélags Strandamanna og er skráning einnig inni á netskraning.is. Gengnir verða 3 x 2,5 km hringir og skotið tvisvar á skotmörk með skíðaskotfimirifflum, fyrst liggjandi og síðan í standandi stöðu. 11-15 ára ganga styttri vegalengdir.
Skíðaskotfimi er íþrótt sem er nýleg hér á landi og er fer ört vaxandi. Skíðaskotfimi blandar saman skíðagöngu og skotfimi og er skráning opin fyrir 11 ára og eldri. Þeir sem keppa í flokki 11-15 ára skjóta með laser rifflum og 16 ára og eldri skjóta úr .22 kalibera rifflum.
Sunnudaginn 9 mars verður einnig hinn skemmtilegi leikjadagur þar sem börn og fullorðnir leika saman á skíðum að hætti SFS. Þar er alltaf mikið fjör. Einnig verður boðið upp á skíðagöngu inn Selárdalinn með Rósmundi Númasyni í fararbroddi.
Skráning fer fram í gegnum vefsíðuna netskraning.is