Komið hefur í ljós eftir að gerðar voru tilraunaholur fyrir grunn að nýjum Bíldudalsskóla að nýverandi jarðvegur er ekki eins góður og vonast var eftir og fara þarf í jarðvegsskipti á svæðinu. Þetta er samkvæmt mati byggingarstjóra. Áætlaður kostnaður við efnaskiptin er metinn á um 25-30 milljónir. Jarðvegsskiptin hafa ekki áhrif á verklok segir í fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar.
Bæjarráð samþykkti að farið verði í efnaskipti á svæðinu og gert verði ráð fyrir fjármögnun í viðauka við fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir 2025.
Nýr Bíldudalsskóli við Hafnarbraut 5 verður samrekinn leik – og grunnskóli fyrir u.þ.b. 36 nemendur, ásamt frístund. Nýbyggingin verður reist með það fyrir augum að nýtast á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Um ræðir áfanga eitt þar sem framtíðaráform eru um að byggja við skólann samhliða aukningu nemenda.
Byggingin verður 550 fermetrar og er hefðbundin timburgrinda bygging á einni hæð.