Vísindaport: Tækifæri í Kolefnisjöfnun á Vestfjörðum

Hjörleifur Finnsson verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu verður í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 17. Janúar. Þar mun hann kynna niðurstöður nýútkominnar skýrslu um kolefnisjöfnun á Vestfjörðum. Skýrslan er liður í gerð loftslagsstefnu fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum þar sem meðal annars er kveðið á um áætlun um kolefnisjöfnun. Markmið skýrslunnar er að skapa þekkingargrunn á einföldu skýrsluformi til þess að gera sveitarfélögunum á Vestfjörðum kleift að setja sér markmið um kolefnisjöfnun í loftslagsstefnu, auk aðgerða til að ná þeim markmiðum. Í skýrslunni voru skoðuð verkefni í sem þyrftu helst að eiga sér stað á Vestfjörðum og mun Hjörleifur fjalla betur um það í erindi sínu.

Hjörleifur er með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hjörleifur starfaði áður sem verkefnastjóri byggðaþróunarverkefnis á Flateyri. Þá var hann verkefnastjóri umhverfismála hjá Ferðamálastofu og þjóðgarðsvörður Norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

DEILA