Húsnæðis og mannvirkjastofnun tekur reglulega saman yfirlit yfir bruna og slys af völdum rafmagns og gefur út í skýrslu.
Skýrslan er ætluð fagmönnum á rafmagnssviði og almenningi til að upplýsa um orsakir bruna og slysa af völdum rafmagns og tjón samfélagsins af þessum völdum. Markmiðið er að koma í veg fyrir bruna og slys af völdum rafmagns eins og kostur er.
Árin 2010-2023 voru 334 rafmagnbrunar skráðir hjá rafmagnsöryggisteymi HMS. Þetta er ekki nema hluti þeirra rafmagnsbruna sem verða því talið er að fjöldi „minni“ bruna sé aldrei tilkynntur eða aðeins tilkynntur til tryggingafélaga.
Fimm dauðsföll eru talin vera af völdum rafmagnsbruna á þessu tímabili, en á tímabilinu 2000-2009 urðu fjögur dauðsföll vegna rafmagnsbruna.
Árin 2010-2023 voru skráð 64 rafmagnsslys hjá HMS. Stofnunin telur að það sé aðeins lítill hluti allra rafmagnsslysa, en gerir ráð fyrir að skráningin nái til flestra alvarlegra slysa.
Í skýrslunni sem nú kemur út eru upplýsingar um bruna og slys sem rafmagnsöryggisteymi HMS tók þátt í að rannsaka eða fékk upplýsingar um á árunum 2010-2023 og ályktanir sem má draga af niðurstöðunum. Í henni er sett fram tölfræði um rafmagnsbruna, svo sem um fjölda og dauðsföll skipt niður á ár, brunastað, uppruna bruna og orsök. Einnig er þar að finna tölfræði um rafmagnsslys, svo sem fjölda skipt niður á ár, tegund slysa, orsök og orsakavald sem og fjölda sjúkradaga og kunnáttusvið slasaðra.