Nýir starfsmenn Byggðastofnunar

Í byrjun desember sl. auglýsti Byggðastofnun eftir sérfræðingi á þróunarsvið stofnunarinnar. Alls bárust 18 umsóknir, 11 frá konum og sjö frá körlum. Nú hefur verið ákveðið ráða Hebu Guðmundsdóttur og Sigfús Ólaf Guðmundsson, segir á heimasíðu Byggðastofnunar.

Heba er með BSBA gráðu í viðskiptafræði frá University of Southern Mississippi og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Heba hefur starfað sem verkefnisstjóri í atvinnu-, menningar- og kynningamálum fyrir sveitarfélagið Skagafjörð síðastliðin sjö ár. Í starfinu hefur hún m.a. komið að vinnu við Sóknaráætlun Norðurlands vestra og unnið með opinberum stofnunum og samtökum sem tengjast atvinnu- og byggðaþróun. Heba hefur víðtæka reynslu í viðburðastjórnun, verkefnastjórnun, samningagerð, þekkingarmiðlun og stefnumótun á sviði atvinnu- og byggðamála og þekkir vel þær áskoranir sem byggðir landsins standa frammi fyrir.

Sigfús er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og lýkur MS gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst vorið 2025. Sigfús hefur starfað við verkefnastjórn síðan 2012 og síðustu sex ár verið deildarstjóri atvinnu-, menningar- og kynningamála hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Á sviði atvinnu- og byggðamála hefur hann m.a. haft umsjón með byggðakvóta, gerð húsnæðisáætlunar og verið í miklum samskiptum og samstarfi við atvinnulífið s.s. ferðaþjónustuna auk þess að sjá um kynningar á fjárfestingatækifærum. Starf hans sem deildarstjóri felur einnig í sér skýrsluskrif, áætlanagerð og þekkingarmiðlun. Þá hefur Sigfús leitt stefnumótun og innleiðingu á stafrænni þróun og upplýsingatækni fyrir sveitarfélagið.

DEILA