Christoph Pfülb, meistaranemi á öðru ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt „Sjálfboðaliðastarf og áhættustýring á Íslandi: Rannsókn á hlutverki staðartengsla og staðbundinnar þátttöku í björgunarsveitum og hjálparstarfi“.
Christoph mun vinna með leiðbeinendum sínum, Dr. Jóhönnu Gísladóttur og Dr. Matthias Kokorsch, sem hafa mikla reynslu á þessu sviði í gegnum CliCNord-verkefnið.
Christoph segir að hann hafi fengið innblástur fyrir rannsókninni í gegnum tvö námskeið sem hann tók hjá Háskólasetri sem hluti af meistaranáminu. Námskeiðin voru Fólkið og hafið: Landfræðilegt sjónarmið sem er kennt af Dr. Kokorsch og Bjargráð við hamförum sem er kennt af Dr. Uta Reichardt. Christoph hefur lengi haft áhuga á mannúðarstarfi og áhættustýringu vegna náttúruváar enda hefur hann lengi verið félagi í þýsku björgunarsamtökunum DLRG.
„Ísland stendur frammi fyrir ólíkum tegundum af náttúruvá og er sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, sem geta aukið hættu á hamförum,“ segir Christoph. „Viðbrögð við neyðartilvikum byggja að miklu leyti á staðbundnu sjálfboðaliðastarfi, einkum í dreifbýli.“
Styrkurinn frá Byggðastofnun mun standa straum af kostnaði við rannsóknina, svo sem hugbúnaði fyrir gagnaúrvinnslu og ferðakostnaði vegna viðtala við sérfræðinga. „Þótt verkefnið krefjist ekki mikilla fjárfestinga veitir styrkurinn mér svigrúm til að einbeita mér algjörlega að ritgerðinni og nýta niðurstöðurnar sem best,“ segir Christoph